Forsíða /
Sjálfbærni /
Umverfið

Umverfið

Við leggjum áherslu á að lágmarka þau neikvæðu áhrif sem starfsemi bankans kann að hafa á umhverfið, meðal annars með því að draga úr gróðurhúsaloftegundum eins og frekast er kostur.

Kvika hefur sett sér umhverfis- og samgöngustefnu þar sem kveðið er á um að bankinn þekki umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitist við að draga úr neikvæðum áhrifum. Enn fremur að umhverfið sé einn af þeim sjálfbærnisþáttum sem hafðir eru til hliðsjónar við ákvarðanatöku. Úrdrátt úr stefnunni má finna hér:

Markmið umhverfis- og samgöngustefnunnar er að Kvika þekki umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitist við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sem starfsemin kann að hafa. Einnig að stuðla að því að starfsfólk noti vistvænan, hagkvæman og heilsusamlegan ferðamáta. Kvika vill leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfi og heilsu starfsfólks síns, sem og allra landsmanna, sýna gott fordæmi og efla vitund fólks um vistvænar samgöngur. Stefnan felur meðal annars í sér að Kvika:

  • uppfyllir að lágmarki kröfur sem gerðar eru í lögum og reglugerðum varðandi umhverfismál starfseminnar og leggur sig fram við að ganga lengra, eins og frekast er kostur;
  • mælir umhverfisáhrif starfsemi sinnar, vaktar þau og stýrir, þannig að leitast er við að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið;
  • lágmarkar úrgang; nýtir auðlindir vel og dregur úr sóun; eykur endurvinnslu og vistvæn innkaup; allt sem hefur það að markmiði að draga úr kolefnisfótspori Kviku;
  • hvetur starfsfólk til að nota vistvænan, hagkvæman og heilsusamlegan ferðamáta og nýta stafræna tækni til samskipta þegar það er mögulegt, til að minnka umhverfisfótsporið;
  • beitir mótvægisaðgerðum og kolefnisjafnar neikvæð áhrif starfseminnar, eins og vegna flugferða og aksturs;
  • hvetur til samráðs við starfsmenn, viðskiptavini, birgja og aðra hagaðila um að standa vörð um umhverfið og grípa til aðgerða sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið;
  • setur sér markmið um árangur í umhverfismálum og birtir árlega opinberar upplýsingar um árangur í umhverfismálum.

Kvika beitir ýmsum úrræðum til að minnka kolefnisfótspor starfseminnar, m.a. að spara orku í starfsstöðvum bankans, takmarka óþarfa prentun og við endurvinnslu. Við hvetjum starfsmenn til að nýta sér vistvænan samgöngumáta og til að nýta fjarfundabúnað í stað ferðalaga eins mikið og kostur er. 

Klappir
Grænvangur

Haustið 2020 innleiddi Kvika stafrænu hugbúnaðarlausnina frá Klöppum grænum lausnum, fyrir umhverfisstjórnun. Hugbúnaðurinn gerir okkur kleift að fylgjast heildstætt með kolefnislosun starfseminnar og útbúa og birta áreiðanleg umhverfisuppgjör, sem lið í markvissum aðgerðum til að stuðla að sjálfbærni. 

Haustið 2021 gerðist Kvika  svo samningsaðili Grænvangs, samstarfsvettvangs atvinnulífs um loftlagsmál og grænar lausnir. 

Umhverfisuppgjör Kviku, sem er hluti af árlegri UFS skýrslu, byggir meðal annars á tölulegum upplýsingum sem safnað hefur verið í gegnum hugbúnaðinn, sem tryggir rekjanleika, gagnsæi og skilvirkni við söfnun gagna og miðlun. Finna má UFS skýrslu Kviku hér.  

Kvika hefur síðan 2019 beitt mótvægisaðgerðum vegna umhverfisáhrifa starfsemi sinnar, þar með talið af flugi, akstri, og vegna annarrar losunar sem stafar af notkun á heitu vatni og rafmagni í rekstri bankans í samstarfi við Votlendissjóð og Kolvið. 

Hlutverk Votlendissjóðs er að vinna að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis, sem og efla líffræðilega fjölbreytni, fuglalíf og bæta vatnsbúskap í veiðiám, í samstarfi við landeigendur, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga. Votlendissjóður styðst við rannsóknir sem sýna að framræst votlendi leiðir til 60% losunar koltvísýrings á Íslandi, og er þá tekið tillit til allra annarra samganga og iðnaðar heldur en alþjóðlegs flugs yfir Íslandi.

Kolviður hefur það að markmiði að auka bindingu kolefnis í skógarvistkerfum í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmslofti, binda jarðveg og draga úr jarðvegseyðingu, auka vitund almennings og fyrirtækja um losun gróðurhúsalofttegunda, og stuðla að fræðslu um tengd málefni. 

Samstarf Kviku við Votlendissjóð og Kolvið um framangreindar mótvægisaðgerðir er liður í framlagi Kviku til baráttunnar gegn losun gróðurhúsaloftegunda, sem er án efa eitt mest knýjandi verkefni samtímans.