13. maí 2025

Útboð á hlutum ríkisins í Íslandsbanka hf. er hafið

Útboðið hófst í dag, þriðjudaginn 13. maí, kl. 08:30 og er gert ráð fyrir að því ljúki kl. 17:00 fimmtudaginn 15. maí 2025

 

Boðnir verða til kaups að lágmarki 376.094.154 hlutir í bankanum, sem samsvarar 20,0% af útistandandi hlutafé bankans. Þá hefur fjármála- og efnahagsráðherra heimild til að auka útboðsmagnið ef umframeftirspurn verður til staðar í útboðinu. Samanlagt geta grunnmagn útboðsins og möguleg magnaukning numið öllum eftirstandandi hlutum ríkisins í Íslandsbanka hf. eða 45,2% af almennum hlutum bankans.

 

Áskrifturvefur útboðs er kvika.is/islandsbanki og hægt er að senda rafræna pöntun gegnum kvika.ipo.is

 

Þrjár leiðir til þátttöku

Þrjár leiðir eru í boði fyrir kaupendur í útboðinu: tilboðsbók A, tilboðsbók B og tilboðsbók C. Tilboðsbækurnar eru mismunandi hvað varðar forgang, stærð tilboða og úthlutun. Einstaklingar geta tekið þátt í útboðinu á grundvelli tilboðsbókar A og B; lögaðilar geta tekið þátt á grundvelli tilboðsbókar B; og eftirlitsskyldir fagfjárfestar sem gera tilboð fyrir eigin reikning og með eignir umfram 70 milljarða króna geta tekið þátt á grundvelli tilboðsbókar C.

 

Sala í gegnum tilboðsbók A mun njóta forgangs við úthlutun útboðshluta gagnvart tilboðsbók B, sem nýtur forgangs gagnvart tilboðsbók C. Framkvæmd og fyrirkomulag þessara þriggja tilboðsbóka er talið uppfylla skilyrði laga nr. 80/2024 um að viðhöfð sé hlutlægni, jafnræði, gagnsæi og hagkvæmni.

 

Ráðgert er að niðurstöður útboðsins verði birtar þann 15. maí 2025 og verða þær tilkynntar á vef Stjórnarráðsins, Íslandsbanka og Kviku.

 

Gert er ráð fyrir að niðurstöður úthlutunar í útboðinu verði tilkynntar fjárfestum þann 16. maí 2025 fyrir opnun markaða.

 

Barclays Bank Ireland PLC, Citigroup Global Markets Europe AG og Kvika banki hf. eru sameiginlegir alþjóðlegir umsjónaraðilar og sameiginlegir söluaðilar í útboðinu.

 

Fyrir nánari upplýsingar getur þú haft samband við fyrirtækjaráðgjöf Kviku á islandsbanki-fyrirspurnir@kvika.is eða í síma 540-3290

 

Nánar um útboðið

 

***

 

Tilkynning þessi og upplýsingarnar sem hér koma fram eru ekki til birtingar eða dreifingar, hvorki með beinum né óbeinum hætti, í heild eða að hluta, í, til eða frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, Ástralíu, Kanada, Japan, Sviss eða Lýðveldinu Suður-Afríku eða annarri lögsögu þar sem slík dreifing eða birting teldist vera brot á löggjöf í viðkomandi lögsögu. Þessi tilkynning er hvorki tilboð um sölu né beiðni um kaup verðbréfa í nokkurri lögsögu, þar með talið í Bandaríkjum Norður-Ameríku, Ástralíu, Kanada, Japan, Sviss eða Lýðveldinu Suður-Afríku. Hvorki tilkynning þessi, né neitt sem hér kemur fram skapar grundvöll fyrir eða er þess eðlis að heimilt sé að reiða sig á efni hennar í tengslum við hvers kyns tilboð eða aðrar skuldbindingar innan hvaða lögsögu sem er. Allar ákvarðanir um kaup, áskrift, annars konar öflun, sölu eða annars konar ráðstöfun verðbréfa verða að byggjast eingöngu á upplýsingum sem fram koma í útboðslýsingu Íslandsbanka hf. Afrit af útboðslýsingunni eru aðgengileg í höfuðstöðvum Íslandsbanka og á heimasíðu bankans: www.islandsbanki.is og verður aðgengileg almenningi á þeirri vefsíðu í að minnsta kosti 10 ár frá útgáfudegi.

Til baka