02. febrúar 2017
Robert Parker spáir auknum hagvexti á heimsvísu á árinu 2017
Kvika
stóð fyrir ráðstefnu 26. janúar síðastliðinn um fjárfestingar á erlendum
mörkuðum í samstarfi við Credit Suisse. Aðalráðgjafi Credit Suisse, Robert
Parker, hélt þar erindi um horfur á erlendum mörkuðum og ræddi möguleg
fjárfestingartækifæri sem kunna að liggja í mismunandi eignarflokkum. Hann
skoðaði hvort alþjóðlegir hlutabréfamarkaðir haldi áfram að hækka og hvaða
afleiðingar verði af hækkandi vaxtastigi í Bandaríkjunum og pólitískri óvissu í
kjölfar Brexit.
Robert Parker hefur gegnt lykilhlutverki hjá Credit Suisse til fjölda ára við greiningu markaða, ráðgjöf og eignastýringu. Hann er í hópi virtustu ráðgjafa í Evrópu þegar kemur að bankamálum og ráðgjöf vegna alþjóðafjárfestinga.
Auknum hagvexti spáð á heimsvísu
Robert sagði að Credit Suisse spái auknum hagvexti á heimsvísu á árinu 2017 og að hagnaður fyrirtækja muni aukast eftir stöðnun síðasta árs. Hlutabréfaumhverfið sé tiltölulega hægstætt um þessar mundir vegna aukins hagvaxtar, lágra vaxta og ásættanlegrar verðbólgu. Það eigi sérstaklega við í Bandaríkjunum þar sem einkaneysla, framleiðsla og fjárfesting hafi verið að aukast. Hann sagði efnahagshorfur í Bandaríkjunum mjög góðar en talið er að hagvöxtur þar muni vaxa um 2,5% á þessu ári sem er jákvætt fyrir aðra heimshluta.
Robert sagði að spáð væri meiri hagvexti í Evrópu, eftir nokkur mögur ár. Helsta ástæðan er veiking evru á móti dollar og sterkari útflutningur. Hann gerir ráð fyrir áframhaldandi stuðningi Seðlabanka Evrópu við fjármálakerfið en pólitísk óvissa vegna kosninga í Þýskalandi og Frakklandi og laskað fjármálaumhverfi í löndum á borð við Ítalíu og Grikkland hamli vexti.
Nýmarkaðir hlutfallslega ódýrari
Credit Suisse spáir því að hlutabréfaverð á nýmörkuðum hækki á árinu. Þannig verði hagvöxtur í Kína 6,5% og að Brasilía og Rússland muni koma til baka eftir efnahagskreppu síðasta árs. Þá sé hagvöxtur í Asíu enn þá mikill, þrátt fyrir lækkun síðustu ára. Robert sagði að hlutabréf á nýmörkuðum séu hlutfallslega ódýrari en á þróaðri mörkuðum en býst við að bilið minnki á þessu ári með hækkun hlutabréfa á nýmörkuðum.
Trump hækkar hlutabréfaverð
Robert sagði að kosningaloforð nýkjörins forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, um lægri skatta á fyrirtæki, auknar fjárfestingar í innviðum og minna regluverk um fjármálakerfið, hefði verið vel tekið á mörkuðum enda hafi hlutabréf hækkað frá því Trump var kosinn forseti. Hann býst við að hagnaður fyrirtækja muni vaxa á árinu og áframhaldandi hækkunum á hlutabréfaverði, þrátt fyrir spár um hækkun vaxta og sterkari dollar.
Robert sagði jafnframt að verðlagning hlutabréfamarkaða sé almennt í takt við langtímameðaltöl nema í Bandaríkjunum, en verðlagning þar er yfir langtímameðaltali. Væntingar um að efnahagsþvingunum gegn Rússlandi verði aflétt á næstunni veitir tækifæri á mörkuðum þar.
Mælir með yfirvigt á nýmörkuðum
Fjárfestingaráðgjöf Credit Suisse mælir með hlutabréfum frekar en skuldabréfum fyrir árið 2017. Mælt er með yfirvigt í nýmörkuðum, sem hafa lækkað mikið undanfarin ár. Í Bandaríkjunum sé horft til fyrirtækja sem starfi á heimamarkaði, s.s. fyrirtækja í innviðafjárfestingum, tæknifyrirtækjum og heilbrigðisgeiranum. Í Evrópu horfir Credit Suisse aðallega til útflutningsfyrirtækja.
Robert gerir ráð fyrir að dollarinn verði áfram sterkur vegna spár um hækkun vaxta í Bandaríkjunum. Að mati Credit Suisse sé pundið orðið ódýrt og spáir bankinn að það muni hækka fljótlega. Bankinn spáir því að gengi evru og yen á móti dollar verði áfram á því bili sem það er í dag.