05. desember 2016
Hópur innlendra og erlendra fjárfesta ásamt stjórnendum ISS Ísland ehf. hafa undirritað kaupsamning við ISS World Services A/S um kaup á öllu hlutafé ISS Ísland ehf. Kvika banki leiddi söluferlið af hálfu seljanda og BBA Legal var lögfræðilegur ráðgjafi.
Samningurinn er háður hefðbundnum fyrirvörum, en bæði kaupendur og seljandi eru bjartsýnir á að eigendaskiptin gangi að fullu í gegn fyrir árslok. Kaupverðið er trúnaðarmál.
Fjárfestahópurinn samanstendur af erlendum aðilum með mikla reynslu af rekstri og stjórnun þjónustufyrirtækja á heimsvísu, innlendum fjárfestum og núverandi stjórnendum ISS Ísland. Meðal fjárfestanna er Patrick de Muynck, fyrrum stjórnandi hjá franska veitingafélaginu Elior Group og sænska sjóðastýringarfélagsins EQT sem m.a. átti ISS og SSP Group um árabil. Elior, SSP og ISS eru meðal stærstu fyrirtækja heims á sviði fasteigna- og veitingaþjónustu. Á meðal fjárfestanna eru að auki Peter Nilsson, fyrrum forstjóri Duni og Sanitech, Einar Sveinsson og Benedikt Sveinsson.
ISS World Services A/S er leiðandi í fasteignaumsjón í heiminum og er með starfsemi í 53 löndum. ISS hóf starfsemi á Íslandi árið 2000, þegar fyrirtækið keypti ræstingadeild Securitas. Á síðastliðnum 16 árum hefur fyrirtækið vaxið og aukið þjónustuframboð sitt verulega. Þjónusta fyrirtækisins felst í ræstingum, veitingaþjónustu, annarri fasteignaumsýslu og samhæfðum þjónustulausnum. Fyrirtækið mun starfa áfram undir merkjum ISS næstu tvö árin á grundvelli samstarfssamnings við ISS World Services A/S.