22. september 2023

Hvatningarsjóður Kviku úthlutar styrkjum

Alls voru það 10 iðnnemar og 6 kennaranemar sem hlutu styrk í ár.

Hvatningarsjóður Kviku hefur það hlutverk að hvetja og styrkja ungt fólk til iðn- og kennaranáms. Markmið sjóðsins er að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og kennaranáms og þýðingu starfa sem því tengjast fyrir íslenskt atvinnulíf. Sjóðurinn var stofnaður árið 2020 og tók við af Hvatningarsjóði iðnnema, stofnaður 2018 og Hvatningarsjóði kennaranema, stofnaður árið 2019.

Samstarfsaðilar Kviku í Hvatningarsjóðnum eru Samtök iðnaðarins og mennta- og barnamálaráðuneytið. Sjóðurinn veitir styrki fyrir allt að 10 milljónum króna árlega, en miðað er við að einstaka styrkir séu frá 500.000 til 1.000.000 króna.

 

Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku banka:

„Mikilvægi iðnnáms og kennaranáms fyrir samfélagið og íslenskt atvinnulíf er ótvírætt og erum við í Kviku afar stolt af því að geta hvatt ungt fólk til dáða í þessum námsgreinum. Frá því að hvatningarsjóðurinn var stofnaður hefur aðsókn í iðnnám aukist verulega. Jafnframt hefur aðsókn í kennaranám aukist og brautskráningum fjölgað samhliða. Vaxandi fjöldi sækir um styrk úr sjóðnum á hverju ári. Við erum stolt af framlagi hans og þökkum Samtökum iðnaðarins og mennta- og barnamálaráðuneytinu fyrir mjög gott samstarf.“

 

Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins:

„Samtök iðnaðarins hafa allt frá stofnun þeirra fyrir 30 árum lagt mikla áherslu á mennta- og mannauðsmál með það fyrir augum að auka veg iðn- og tæknináms. Aðsókn í slíkt nám er nú mikil og því ríður á að flýta enn frekar byggingu nýs Tækniskóla í Hafnarfirði svo bætt aðstaða og sveigjanlegt starfsumhverfi fyrir þennan mikilvæga nemendahóp verði tryggð. Það er einkar ánægjulegt að taka þátt í að hvetja og styrkja ungt fólk í iðnnámi til frekari dáða. Ég óska öllum styrkþegum innilega til hamingju og óska þeim velfarnaðar í sínum framtíðarverkefnum.“

 

Hvatningarsjóður Kviku óskar styrkþegum til hamingju með úthlutaðan styrk á árinu.

Iðnnemar

 • Aldís Lilja Sigurðardóttir nemi í gull og silfursmíði í Tækniskólanum
 • Emilía Reynisdóttir nemi í rafvirkjun í Tækniskólanum
 • Eva Guðrún Geogiades nemi í byggingariðnfræði í Háskólanum í Reykjavík
 • Eyjólfur Eiríksson nemi í múriðn í Tækniskólanum
 • Helgi Líndal Elíasson nemi í gullsmíði í Tækniskólanum
 • Katla Þórudóttir nemi í matreiðslu í Menntaskólanum í Kópavogi
 • Tara Ósk Markúsdóttir nemi í vélstjórn og rafvirkjun í Tækniskólanum
 • Tómas Máni Firth nemi í húsasmíði í Tækniskólanum
 • Vinný Dögg Jónsdóttir nemi í rafvirkjun í Tækniskólanum
 • Ævar Ottó Arnarson nemi í rafvirkjun í Verkmenntaskólanum á Akureyri

 

Kennaranemar 

 • Ásta Dís Helgadóttir nemi í grunnskólakennslu yngri barna í Háskóla Íslands
 • Dagrún Sól Barkardóttir nemi í kennarafræðum í Háskólanum á Akureyri
 • Ella Dís Thorarensen nemi í kennslu list og verkgreinum í Háskóla Íslands og húsasmíði í Tækniskólanum
 • Hildur Lovísa Hlynsdóttir nemi í kennslufræðum yngri barna í Háskóla Íslands
 • Jóhann Óli Rainersson nemi í stærðfræðikennslu í Háskóla Íslands
 • Lína Dóra Hannesdóttir nemi í kennsluréttindum á framhaldsskólastigi í Háskólanum á Akureyri

Hvatningarsjóður Kviku

Til baka