12. mars 2024

Yfir 100 milljarðar í innlánum Auðar á 5 ára afmælinu

Staða innlána Auðar, fjármálaþjónustu Kviku, hefur nú náð 100 milljörðum króna og hefur hún aukist um 70 milljarða síðustu tvö ár. Þá hefur viðskiptavinum Auðar fjölgað töluvert en í dag eru þeir orðnir um 45 þúsund.

Auður, sem býður uppá sparnaðarreikninga á háum vöxtum, er fimm ára í dag en hún tók á móti fyrstu innlánum þann 12. mars 2019.

Aukið samkeppni á innlánamarkaði

Þegar Auður kom á markaðinn bauð hún upp á töluvert hærri vexti á sparnaðarreikningum en þá þekktust hjá öðrum bönkum, eða 4% vexti sem voru þá hæstu mögulegu vextir á sparnaðarreikningum. Aðrir bankar fylgdu í kjölfarið og hófu að hækka sína vexti á innlánsreikningum. Auður hreyfði því verulega við markaðnum og hefur frá upphafi aukið samkeppni á innlánamarkaði til hagsbóta fyrir alla neytendur og heimilin í landinu. Áætla má að síðan Auður hóf starfsemi hafa orðið til um 20 milljarðar í auknar vaxtatekjur fyrir heimilin.

Með hækkandi vaxtaumhverfi hefur staðan breyst töluvert. Enn í dag býður Auður upp á hæstu vexti á óbundnum sparnaðarreikningum á markaðnum eða 9,11%. Þjónusta Auðar hefur þróast töluvert síðustu ár og er nú boðið upp á fjölbreyttari innlánsreikninga eins og bundna reikninga og græna framtíðarreikninga.

Einföld, traust og með betri kjör

„Frá upphafi hefur Auður unnið eftir því grundvallarstefi að vera einfaldur, traustur og gagnsær sparnaður með litla yfirbyggingu sem hefur í för með sér betri kjör. Þegar við settum Auði af stað vorum við að bjóða upp á nýja hugsun fyrir markaðinn og það hefur verið gaman að sjá hversu vel hefur verið tekið á móti Auði og hvernig vörumerkið hefur þroskast og áunnið sér traust. Þá hefur verið frábært að sjá hvernig hún hefur aukið samkeppni á þessum markaði og haft áhrif á kjör innlána hjá öðrum bönkum til hagsbóta fyrir alla neytendur,“ segir Hilmar Kristinsson, verkefnastjóri Auðar hjá Kviku.

Byrjaðu að spara með Auði

Til baka