10. nóvember 2022

Afkoma fyrstu níu mánaða ársins 2022 og afkomuspá fyrir næstu fjóra fjórðunga

Á stjórnarfundi þann 10. nóvember 2022 samþykktu stjórn og forstjóri árshlutauppgjör samstæðu Kviku banka hf. („Kvika“) fyrir tímabilið 1. janúar til 30. september 2022.
                                                                                                            
Helstu atriði úr árshlutareikningi á fyrstu níu mánuðum ársins 2022

  • Hagnaður fyrir skatta nam 4.007 milljónum króna
  • Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár fyrir skatta var 12,3%
  • Hagnaður á hlut nam 0,66 kr. á tímabilinu
  • Heildareignir námu 298 milljörðum króna
  • Eigið fé samstæðunnar var 79 milljarðar króna
  • Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,34 og eiginfjárhlutfall samstæðunnar án tryggingastarfsemi (CAR) var 23,5% í lok tímabilsins 
  • Heildar lausafjárþekjuhlutfall (LCR) samstæðunnar var 308%
  • Heildareignir í stýringu námu 460 milljörðum króna

Kynningarfundur fyrir hluthafa og markaðsaðila verður að þessu sinni haldinn kl. 08:30 föstudaginn 11. nóvember í höfuðstöðvum bankans, á 9. hæð í Katrínartúni 2, 105 Reykjavík. Á fundinum mun Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, fara yfir uppgjör félagsins og helstu þróun á liðnum mánuðum. Þá mun Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kviku í Bretlandi, kynna lánastarfsemi samstæðunnar í Bretlandi sem fram fer undir merkjum Ortus Secured Finance. 

Fundinum verður jafnframt streymt á íslensku á eftirfarandi vefslóð:

https://kvika.is/kynning-a-uppgjori-9m-2022/

Meðfylgjandi er fjárfestakynningin. Að auki mun upptaka með enskum texta vera gerð aðgengileg á vefsvæði Kviku.

Sterkur grunnrekstur 

Hagnaður Kviku fyrir skatta nam 4.007 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 og 1.841 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi. Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár (e. return on weighted tangible equity) fyrir skatta var 12,3% á fyrstu níu mánuðum ársins og 17,7% á þriðja ársfjórðungi.

Hreinar vaxtatekjur námu 5.764 milljónum króna og jukust um 97% miðað við sama tímabil árið áður. Aukningu vaxtatekna má helst skýra með stækkun og breyttri samsetningu lánasafns vegna samruna við Lykil fjármögnun, kaupum á Ortus Secured Finance og breyttri samsetningu lausafjáreigna. Hrein virðisrýrnun nam 171 milljónum króna á tímabilinu samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 160 milljónir á fyrstu níu mánuðum ársins 2021. Hreinar fjárfestingatekjur voru neikvæðar um 660 milljónir króna við krefjandi aðstæður á eignamörkuðum. Hreinar þóknanatekjur námu 4.905 milljónum króna sem er 4% lækkun frá sama tímabili á fyrra ári. Rekstrarkostnaður nam 9.492 milljón króna á fyrstu níu mánuðum ársins og var í samræmi við áætlanir.

Hagfellt samsett hlutfall TM en erfiðar aðstæður á verðbréfamörkuðum 

Samsett hlutfall TM nam 95,8% á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 89,1% á sama tímabili árið á undan en samsett hlutfall á þriðja fjórðungi nam 88,3%. Tap vegna fjárfestinga tryggingafélagsins nam 546 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og ávöxtun eignasafnsins því -1,6% á tímabilinu samanborið við 13,4% ávöxtun á fyrstu níu mánuðum ársins 2021. Tap vegna fjárfestinga á þriðja ársfjórðungi nam 185 milljónum króna og ávöxtun eignasafnsins því -0,5% samanborið við 3,6% á þriðja ársfjórðungi ársins 2021.

Sterkur efnahagur og góð lausafjárstaða

Heildareignir Kviku jukust um 21% eða 51 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 og námu 298 milljörðum króna í lok september. Útlán til viðskiptavina jukust um tæpa 32 milljarða króna á tímabilinu og  námu 104 milljörðum króna í lok september. Aukningin er að hluta til komin vegna kaupa á Ortus Secured Finance Ltd. sem og innri vexti útlána. Innstæður í bönkum og Seðlabanka ásamt ríkistryggðum verðbréfum námu 78 milljörðum króna en heildar lausafjáreignir voru 106 milljarðar króna og jukust um 6 milljarða króna á tímabilinu. Heildar lausafjárþekja (LCR) samstæðunnar nam 308% í lok september sem var vel umfram 100% lágmarkskröfu eftirlitsaðila.

Eigið fé samstæðunnar var 79 milljarðar króna í lok tímabilsins samanborið við 78 milljarða króna í lok 2021. Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,34 í lok þriðja fjórðungs og áhættuvegið eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) án áhrifa TM nam 23,5%. Í október bárust Kviku drög að niðurstöðum úr könnunar- og matsferli (e. Supervisory Review and Evaluation Process, SREP) fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, með fyrirvara um andmæli Kviku, þar sem eiginfjárkrafa Kviku er lækkuð umtalsvert. Kvika mun ekki andmæla niðurstöðunni um eiginfjárkröfu en samkvæmt þeim drögum að niðurstöðum er eiginfjárkrafa Kviku ásamt eiginfjáraukum eftirlitsaðila 17,7%.

Frekari endurkaup á eigin bréfum í skoðun

Á aðalfundi Kviku þann 31. mars 2022 var samþykkt að heimila stjórn félagsins að kaupa allt að 10% af útgefnum hlutum í félaginu, sem jafngildir allt að 481.730.531 hlutum m.v. heildarhlutafé þess dags.

Á grundvelli þeirrar samþykktar ákvað stjórn Kviku þann 17. maí 2022 sl. að nýta hluta framangreindrar heimildar og koma á endurkaupaáætlun um framkvæmd kaupa á hlutum fyrir allt að 3.000.000.000 kr. að kaupvirði. Á tímabilinu 19. maí til 22. september keypti bankinn 147.871.265 eigin hluti, sem samsvarar um það bil 3,0% af útgefnu hlutafé, eða um 30% af heimild aðalfundar, fyrir um 3 milljarða króna. Stjórn hefur ekki tekið ákvörðun um frekari kaup á eigin bréfum en mun á næstunni skoða tækifæri til nýtingar eigin fjár m.a. með endurkaupum samkvæmt eftirstandandi heimild hluthafafundar. 

Uppfærð afkomuspá

Afkomuspá Kviku fyrir næstu fjóra fjórðunga gerir ráð fyrir 9,1 milljarða króna hagnaði fyrir skatta sem samsvarar 21,7% arðsemi á efnislegt eigið fé samstæðunnar. Nánari forsendur má sjá í meðfylgjandi fjárfestakynningu.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku:

„Ég er stoltur af uppgjörinu. Félagið er að skila yfir 17% arðsemi á þriðja ársfjórðungi en lykilástæða þess er sterkur kjarnarekstur samstæðunnar. Eins og aðrir þá höfum við fundið fyrir óvissu og erfiðum markaðsaðstæðum m.a. í gegnum fjárfestingastarfsemi okkar, en undir slíkum kringumstæðum er sérstaklega ánægjulegt að sjá fjölbreytta tekjustrauma samstæðunnar vega hvorn annan upp og viðskiptamódelið sem við höfum lagt mikla vinnu í að byggja upp skila tilætluðum árangri. Áhættudreifing í rekstri og þróun síðustu ára endurspeglast einnig í drögum að uppfærðri eiginfjárkröfu sem við móttókum í október, þar sem rekstur Kviku er metinn mun áhættuminni en í síðasta SREP ferli frá árinu 2019.

Samhliða uppgjörinu setjum við fram afkomuspá fyrir næstu fjóra ársfjórðunga sem við teljum nokkuð varfærna m.a. vegna aðstæðna á mörkuðum og í heiminum öllum. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir hægari vexti í Bretlandi, verðbólguáhrifum á rekstrarkostnað og lækkuðum þóknanatekjum felur afkomuspáin í sér prýðilega arðsemi.
    
Ég tel Kviku vera í einstakri stöðu til þess að grípa tækifærin og hlakka til að sjá ýmis spennandi verkefni, sem nú eru í undirbúningi, verða að veruleika. Það er þó mikilvægt að við séum meðvituð um þróunina í okkar ytra umhverfi og högum vexti eftir aðstæðum.“

Viðhengi

Til baka