Forsíða /
Um Kviku /
Regluverk

Regluverk

Lög um fjármálafyrirtæki

Kvika er fjármálafyrirtæki í skilningi laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og fellur því undir gildissvið laganna. Tilgangur laganna er að tryggja að fjámálafyrirtæki séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa, stofnfjáreigenda og alls þjóðarbúsins að leiðarljósi.

Lög um hlutafélög

Kvika er hlutafélag og fellur því undir gildissvið laga um hlutafélög nr. 2/1995. Reglur hlutafélagalaga innihalda m.a. umfjöllun um starfsemi fyrirtækja, hlutafé, hlutabréf, stjórnskipulag, hluthafafundi, endurskoðun og ábyrgð stjórnenda.

Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Þann 1. janúar 2019 tóku gildi lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018, sem gilda m.a. um fjármálafyrirtæki. Markmið laganna er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsmi er kann að verða notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi. Lögin byggja á grunni eldri laga en fela þó í sér talsverðar breytingar og leggja þyngri skyldur á fjármálafyrirtæki sem hafa áhrif á viðskiptamenn.  SFF hefur gefið út upplýsingaefni þar sem fram koma helstu breytingar sem lögin koma til með að hafa fyrir viðskiptamenn. Efnið er aðgengilegt hér fyrir neðan.

pdfUpplýsingablað SFF fyrir einstaklinga

pdfUpplýsingablað SFF fyrir lögaðila

Lög um greiðsluþjónustu

Kvika flokkast sem greiðsluþjónustuveitandi í skilningi laga um greiðsluþjónustu nr. 120/2011. Lögin tóku gildi 1. desember 2011 og fjalla m.a. um samræmdar reglur um upplýsingagjöf og réttindi og skyldur notenda og veitenda greiðsluþjónustu. Lögin eiga að tryggja vernd allra notenda greiðsluþjónustu og að greiðslur verði jafn einfaldar, hagkvæmar og öruggar í framkvæmd innan EES eins og innlendar greiðslur. Þau gilda í grundvallaratriðum, um allar rafrænar greiðslur, þ.m.t. greiðslur með kreditkortum, debetkortum og millifærslur í banka. Lögin gilda ekki um greiðslur með reiðufé eða tékkum, o.fl. Lögin eru ófrávíkjanleg nema að því leyti sem þau heimili sérstaklega að frá þeim sé vikið.

Lög um verðbréfaviðskipti

Þann 1. nóvember 2007 tóku í gildi lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Markmið laganna er að setja samræmdar reglur um neytendavernd fjárfesta og skapa sameiginlegan innri markað með fjármálaþjónustu. Lögð er áhersla á aukið eftirlit, faglega framkvæmd og upplýsingagjöf. Þá er löggjöfinni ætlað að tryggja að þeir viðskiptavinir fjármálafyrirtækja, sem eiga í verðbréfaviðskiptum, fái ávallt viðeigandi upplýsingar og ráðgjöf. Til þess að svo megi verða eru lagðar auknar skyldur á viðskiptavini um upplýsingagjöf til fjármálafyrirtækja. Allir sem vilja eiga viðskipti við Kviku þurfa að ganga í gegnum ákveðið ferli og fylla út umsókn áður en hægt er að stofna til viðskipta. Þá ber Kviku samkvæmt lögunum að flokka viðskiptavini sína í viðeigandi flokk fjárfesta; almenna fjárfesta, fagfjárfesta eða viðurkennda gagnaðila.

pdfFlokkar fjárfesta