Forsíða /
Um Kviku /
Mannauður /
Jafnréttisstefna

Jafnréttisstefna

Stefna þessi nær til Kviku banka hf. og dótturfélaga, þar með talið TM trygginga hf. og Kvika eignastýringar hf. („Kvika“ eða „samstæðan“). Stefna Kviku er að hafa jafnræði og fjölbreytileika að leiðarljósi. Allt starfsfólk á að hafa möguleika á að nýta hæfileika sína í starfi og vera metnir að eigin verðleikum, hafa jafna möguleika og sömu réttindi í starfi og til starfsframa óháð kyni, aldri og uppruna.

Jafnréttisstefnu Kviku og dótturfélaga er ætlað að tryggja starfsfólki jöfn tækifæri og er hún unnin í samræmi við þau lög og reglugerðir sem fjalla um jafna stöðu og jafnan rétt, óháð kyni, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu eða hverskonar ómálefnalegum þáttum.

Stefnan byggir á mannauðsstefnu Kviku og gildum um langtímahugsun, hugrekki og einfaldleika.

Félagið fylgir þeim lögum og reglum sem snerta jafnréttismál og gilda á hverjum tíma, þ.m.t. lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna .

Jafnréttisstefna Kviku nær til allra starfsmanna samstæðunnar á hverjum tíma.

MARKMIÐ OG MEGINÁHERSLUR

Markmið stefnunnar er að Kvika sé eftirsóknarverður vinnustaður þar sem allt starfsfólk hefur jöfn tækifæri með því að koma í veg fyrir hvers konar mismunun sem byggir á kynferði, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu eða hverskonar ómálefnalegum þáttum.

Megináherslur í jafnréttismálum Kviku:

  • Að starfsfólk fái greidd jöfn laun og búi við sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kynferði, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu eða öðrum ómálefnalegum þáttum.
  • Að starfsfólk eigi jafna möguleika á lausum störfum, þátttöku í starfshópum og nefndum, starfsþróun, símenntun og endurmenntun óháð kynferði, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu eða öðrum ómálefnalegum þáttum.
  • Stefnt er að jöfnu kynjahlutfalli meðal starfsfólks og að ákveðin störf flokkist ekki sem sérstök karla- eða kvennastörf.
  • Kvika leggur áhersla á að starfsfólk geti samræmt vinnu og einkalíf.
  • Einelti, kynferðisleg- og kynbundin áreitni og ofbeldi er ekki liðið hjá Kviku.

Forstjóri ber ábyrgð á að jafnréttisstefnu Kviku sé framfylgt. Forstjóri/framkvæmdastjórar dótturfélaga bera ábyrgð á að jafnréttisstefnu sé framfylgt innan síns félags. Stjórnendur og starfsfólk ber sameiginlega ábyrgð á að fara eftir stefnunni.

Árangur er mældur reglulega og ráðstafanir gerðar til að lagfæra frávik frá markaðri stefnu sem fram kunna að koma. Stjórnendur skuldbinda sig einnig til að viðhalda stöðugum umbótum, eftirliti og bregðast við óútskýrðum launamun og þeim frávikum sem koma fram við rýni á jafnlaunakerfinu.