Með Parísarsamkomulaginu, sem undirritað var árið 2016, skuldbundu ríki Sameinuðu þjóðanna sig til að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og tryggja umtalsvert fjármagn til grænna lausna. Í mars 2018 kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins aðgerðaáætlun um fjármögnun sjálfbærs vaxtar innan sambandsins. Áætlunin byggðist á skýrslu hóps háttsettra sérfræðinga um sjálfbærar fjárfestingar og setti fram tíu lykilaðgerðir sem ætlað var að stuðla að frekari sjálfbærni á fjármálamarkaði. Í áætluninni var meðal annars lögð áhersla á að samræma upplýsingagjöf um áhættu tengda sjálfbærni við fjárfestingarákvarðanir og koma á samræmdu flokkunarkerfi með skilgreiningum á því hvað teldist sjálfbær atvinnustarfsemi. Í því skyni samþykktu Evrópuþingið og ráðið tvær reglugerðir, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2088 um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu („Sustainable Finance Disclosure Regulation“ eða „SFDR“) og (ESB) 2020/852 um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu og um breytingu á reglugerð (ESB) 2019/2088 („EU Taxonomy“).
SFDR og Taxonomy voru innleiddar í íslenskan rétt með lögum um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar nr. 25/2023. Lögin tóku gildi 1. júní 2023.
Taxonomy skilgreinir viðmið sem ákvarða hvort atvinnustarfsemi uppfyllir skilyrði þess að teljast umhverfislega sjálfbær. Taxonomy gerir jafnframt kröfu um það að fyrirtækjum sem beri skylda til að birta ófjárhagslegar upplýsingar með ársreikningi skuli birta upplýsingar um hvernig og að hvaða marki starfsemi fyrirtækisins tengist atvinnustarfsemi sem telst vera umhverfislega sjálfbær. Kvika birti slíkar upplýsingar í fyrsta sinn sem viðauka við ársreikning fyrir árið 2023. Vegna nýlegrar innleiðingar upplýsingaskyldunnar, skort á innleiðingu ýmissa tengdra Evrópugerða í íslenskan rétt og skorts á upplýsingagjöf frá lögaðilum sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar eru upplýsingarnar hins vegar takmarkaðar enn sem komið er.
SFDR innleiðir samræmdar reglur fyrir aðila sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar um þær upplýsingar sem þeim ber að birta fjárfestum um sjálfbærnitengd áhrif í tengslum við fjármálaafurðir. Reglugerðin tekur mið af markmiðum Parísarsamkomulagsins um að draga verulega úr áhættu og áhrifum af loftslagsbreytingum með því, meðal annars, að beina aðilum á fjármálamarkaði að lausnum sem taka mið af þróun í átt að minni losun gróðurhúsalofttegunda og viðnámi gegn loftslagsbreytingum.
SFDR leggur m.a. skyldur á aðila sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar að birta upplýsingar á heimasíðu um það hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvarðanir sem og í ráðgjöf og hvort, og þá hvernig, tekið er tillit til skaðlegra áhrifa á sjálfbærni. Þær upplýsingar sem ber að birta eiga að gera endanlegum fjárfestum kleift að taka upplýstari fjárfestingarákvarðanir og eiga þær því að vera hluti af þeirri upplýsingagjöf sem veitt er fjárfestum áður en samningur er gerður.
Kvika hefur gefið út sjálfbærnistefnu og sjálfbærniáhættu ramma sem skilgreinir sjálfbærniáhættu í starfsemi samstæðunnar, þ. á m. í fjárfestingum. Bankinn hefur jafnframt sett sér og fylgir stefnu um ábyrgar fjárfestingar.
Samkvæmt 3. gr. SFDR skulu aðilar á fjármálamarkaði birta á heimasíðu upplýsingar um stefnur sínar um hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvörðunartökuferli þeirra. Þá skulu fjármálaráðgjafar birta á heimasíðu upplýsingar um stefnur sínar um hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingar- eða vátryggingaráðgjöf þeirra. Kvika og hluti dótturfélaga bankans falla undir framangreinda upplýsingaskyldu.
Með áhættu tengdri sjálfbærni er átt við atburð eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta sem gæti, ef hann gerist, haft raunveruleg eða hugsanleg veruleg neikvæð áhrif á virði fjárfestingarinnar. Dæmi um sjálfbærniáhættu er að finna í lýsingu bankans á eðli og áhættu fjármálagerninga sem er aðgengileg á heimasíðu.
Kvika hefur að undanförnu og mun halda áfram að vinna að innleiðingu SFDR í starfsemi bankans og samstæðu hans, en í því felst m.a. að taka tillit til og meta áhrif sjálfbærniáhættu í tengslum við ákvarðanatöku í fjárfestingaráðgjöf, eignastýringu og vátryggingarráðgjöf. Bankinn hefur gefið út sjálfbærnistefnu og sjálfbærniáhættu ramma sem skilgreinir sjálfbærniáhættu í starfsemi samstæðunnar, þ. á m. í fjárfestingum. Bankinn hefur jafnframt sett sér og fylgir stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Sú starfsemi sem SFDR tekur til er hins vegar að langmestu leyti rekin í dótturfélögum bankans og hafa þau sett sér undirstefnur um sjálfbærniáhættu í fjárfestingarákvörðunum og ráðgjöf. Stefnur og reglur bankans og dótturfélaga á sviði sjálfbærni eru aðgengilegar á heimasíðum félaganna.
Samkvæmt 4. gr. SFDR skulu aðilar á fjármálamarkaði birta og uppfæra á heimasíðu upplýsingar um hvort þeir taka tillit til helstu neikvæðu áhrifa fjárfestingarákvarðana á sjálfbærniþætti, yfirlýsingu um stefnur um áreiðanleikakönnun að því er varðar þessi áhrif, að teknu tilliti til stærðar þeirra, eðlis og umfangs starfsemi þeirra og þeirra gerða fjármálaafurða sem þeir veita. Ef þeir taka ekki tillit til neikvæðra áhrifa fjárfestingarákvarðana á sjálfbærniþætti skal einnig upplýsa um það og tilgreina skýrar ástæður fyrir því hvers vegna þeir gera það ekki, þ.m.t., ef við á, upplýsingar um hvort og hvenær þeir hyggjast taka tillit til slíkra neikvæðra áhrifa. Aðilum sem fara yfir viðmið um 500 starfsmenn eða móðurfélag stórrar samstæðu sem fer yfir viðmið um 500 starfsmenn er skylt að birta framangreindar upplýsingar. Kvika fellur ekki undir þau viðmið, hvorki sem aðili né móðurfélag í samstæðu.
Kvika tekur sem stendur ekki tillit til neikvæðra áhrifa fjárfestingarákvarðana og fjárfestingarráðgjafar á sjálfbærniþætti. Athugun á neikvæðum áhrifum fjárfestingarákvarðana og fjárfestingarráðgjafar á sjálfbærniþætti krefst endurnýjunar á gildandi innri ferlum, aukinnar gagnasöfnunar og mælinga ásamt ófjárhagslegum upplýsingum félaga og útgefenda sem fjárfest er í.
Kvika hefur enn ekki þróað þessa ferla og telur sig ekki geta framkvæmt hæfilegt mat á neikvæðum áhrifum fjárfestinga á sjálfbærniþætti á meðan ófjárhagslegar upplýsingar eru enn af skornum skammti og gæði þeirra oft á tíðum ófullnægjandi. Kvika vinnur að því að meta hvernig eigi að standa að söfnun og vöktun gagna til að meta neikvæð áhrif fjárfestinga á sjálfbærniþætti eftir stærð og tegund útgefenda og mismunandi fjármálagerningum, fjármálaafurðum og fjárfestingarstefnum.
Kvika mun fylgjast með áframhaldandi þróun á regluverki tengt sjálfbærni. Samhliða því mun Kvika leitast við að þróa ferla, þegar fram líða stundir, sem gera félaginu kleift að safna og mæla helstu neikvæðu áhrif sjálfbærniþætti eftir því sem aðgengi að gögnum eykst og upplýsingagjöf batnar.