Hagsæld framtíðarinnar grundvallast á menntun og teljum við menntun eina bestu langtímafjárfestingu sem einstaklingar og samfélög geta ráðist í. Að okkar mati verða samfélög sem drifin eru áfram af hugviti og nýsköpun leiðandi á komandi árum og menntun því einn af hornsteinum samfélagsins og mikilvægur hlekkur í því að stuðla að sjálfbærni. Þá teljum við menntun grundvallaratriði í réttindabaráttu kvenna, við verndun barna gegn barnavinnu og kynferðislegri misnotkun, til eflingar mannréttindum og lýðræði og til að stuðla að umhverfisvernd. Vegna þessa höfum við sett sérstaka áherslu á að styðja við menntamál, m.a. í gegnum Hvatningarsjóð Kviku. Þá rekur Kvika góðgerðarsjóðinn FrumkvöðlaAuði sem hefur það að meginstefnu að hvetja ungar konur til frumkvæðis og athafna.
Við gerum okkur grein fyrir því að bankinn getur haft einna mest áhrif á samfélagið með því að beita sér á þeim sviðum sem tengjast starfsemi bankans. Því er einnig lögð sérstök áhersla á að hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu og virkni fjármálamarkaða. Við vinnum í því sambandi að því að leita leiða til að virkja betur fjárfesta hér á landi með þróun fjölbreyttari fjárfestingarkosta fyrir þá sem nú þegar eiga hlut að verðbréfamörkuðum, sem og nýja fjárfesta. Þá viljum við taka virkan þátt í umræðu um fjármálamarkaði.
Kvika hefur síðan 2017 verið meðlimur að Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð, sem hvetur til samstarfs og aðgerða á sviði samfélagsábyrgðar. Þá er Kvika aðalsamstarfsaðili UNICEF á Íslandi á sviði bankaþjónustu og velunnari heimsforeldra. Kvika niðurgreiðir bankakostnað heimsforeldra og gerir UNICEF á Íslandi þannig kleift að nýta söfnunarfé sitt enn betur í þágu réttinda og velferð barna.
Auk framangreindra aðaláherslna viljum við styðja við ýmis önnur mál sem stuðla að jákvæðri samfélagsþróun í formi samstarfs og minni styrkveitinga.