28. nóvember 2016
Stjórnir Kviku banka hf. og Virðingar hf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um undirbúning samruna félaganna undir nafni Kviku.
Í aðdraganda sameiningar verður eigið fé Kviku lækkað um 600 m.kr. og lækkunin greidd til hluthafa bankans. Hluthafar Kviku munu eftir samruna eiga 70% hlut í sameinuðu félagi og hluthafar Virðingar 30%.
Með sameiningu Kviku og Virðingar yrði til öflugt fjármálafyrirtæki sem væri leiðandi á fjárfestingabankamarkaði. Sameinað félag yrði einn stærsti aðili í eignastýringu á Íslandi með um 220 milljarða króna í stýringu og fjölda sjóða í rekstri s.s. verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði, framtakssjóði, fasteignasjóði, veðskuldabréfasjóði og ýmsa fagfjárfestasjóði. Auk þess myndi sameinað félag ráða yfir öflugum markaðsviðskiptum, fyrirtækjaráðgjöf, sérhæfðri lánastarfsemi og einkabankaþjónustu.
Á næstu vikum verður unnið að samkomulagi um helstu skilmála fyrir samrunanum, þ.m.t. um forsendur, gerð áreiðanleikakannana, endanlega samningsgerð og aðgerðar- og tímaáætlun. Ef sameining félaganna nær fram að ganga er stefnt að því að hún taki gildi um mitt næsta ár.