20. júní 2023
Á Kvenréttindadaginn þann 19. júní fór fram úthlutun styrkja úr sjóði FrumkvöðlaAuðar. Megin markmið sjóðsins er að hvetja ungar konur til frumkvæðis og athafna og í ár bárust sjóðnum 50 umsóknir um styrki. Stjórn FrumkvöðlaAuðar veitti fimm verðugum verkefnum styrk í þetta sinn en þetta var í fjórtánda sinn sem úthlutað var úr sjóðnum. Þau verkefni sem hlutu styrk í ár voru:
ADA konur: ADA konur er vettvangur á Instagram og TikTok þar sem kvenfyrirmyndir í hugbúnaðargeiranum sýna frá sér, sínu starfi og svara spurningum fylgjenda. Markmiðið er að gera kvenfyrirmyndir í geiranum sýnilegri.
Álvit: Verkefnið gengur út á að fullþróa nýjan umhverfisvænan kragasalla til að vernda járngaffla rafgreiningakera álvera til að nýta betur rafskaut álvera og minnka skautleifar.
Dóttir Skin: Dóttir Skin eru húðvörur hannaðar fyrir íþróttafólk. Fyrsta íslenska vatns og svitafælna andlitssólavörnin hönnuð fyrir íþróttafólk er væntanlega á markað fljótlega. Afrekskonurnar Annie Mist og Katrín Tanja eru meðal stofnanda Dóttir Skin.
IðunnH2: IðunnH2 sérhæfir sig í að nýta vetni í orkuskiptin þar sem rafmagn eitt og sér dugar ekki til. IðunnH2 er að þróa vinnslu á sjálfbæru þotueldsneyti í Helguvík, þar sem innlendir og endurnýjanlegir orkugjafar eru nýttir til að framleiða eldsneyti til íblöndunar við hefðbundið þotueldsneyti.
On to Something: OtS er viðskiptavettvangur sem eflir úrgangsforvarnir og þjónustar hringrásarhagkerfið þar sem afgangs og hliðarafurðir verða auðlindir. OtS er í senn upplýsinga- og gagnaveita og uppboðs- og útboðsmarkaður.
Stjórn sjóðsins skipa: Íris Arna Jóhannsdóttir, formaður, forstöðumaður rekstrar hjá Kviku Securities London, Ólöf Jónsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Kviku og Vaka Jóhannesdóttir, forstöðumaður fjármála og rekstrar hjá Kviku eignastýringu.
Kvika óskar styrkþegum innilega til hamingju.
Um FrumkvöðlaAuði
FrumkvöðlaAuður er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var á sínum tíma af Auði Capital árið 2009, nú Kviku banka, og er markmið hennar að vera góðgerðarsjóður með það að meginstefnu að hvetja konur til frumkvæðis og athafna. Stjórn sjóðsins veitir styrki sem úthlutað er 19. júní ár hvert. Stjórnin auglýsir eftir umsóknum en áskilur sér einnig rétt til að styrkja verkefni án umsóknar. Sjóðurinn getur tekið á móti fjárframlögum hvort sem er frá stofnanda eða öðrum sem vilja veita markmiðum hans brautargengi. Næst verður opnað fyrir umsóknir í maí 2024. Sjá nánar um FrumkvöðlaAuði.
Á meðfylgjandi ljósmynd f.v.: Sara Jónsdóttir og María Kristín Jónsdóttir frá On to Something, Helena Sveinborg Jónsdóttir frá ADA konur, Ásgerður Ágústsdóttir frá Iðunn H2, Annie Mist Þórisdóttir frá Dóttir Skin, Sunna Ólafsdóttir frá Álvit og Vaka Jóhannesdóttir frá stjórn FrumkvöðlaAuðar. Ljósmynd: Kvika/Sigurjón Sigurjónsson.