24. febrúar 2022

Uppgjör Kviku fyrir árið 2021

Á stjórnarfundi þann 24. febrúar 2022 samþykktu stjórn og forstjóri ársreikning samstæðu Kviku banka hf. („samstæða Kviku“) fyrir árið 2021.


Helstu atriði úr ársreikningi:

  • Hagnaður fyrir skatta nam 10.487 milljónum króna (12.004 milljónum króna að meðtöldum hagnaði TM hf. og Lykils      fjármögnunar hf. á fyrsta ársfjórðungi)
  • Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár fyrir skatta var 34,7% (35,2% eftir skatta)
  • Hagnaður á hlut nam 2,62 kr. á tímabilinu
  • Heildareignir námu 246 milljörðum króna
  • Eigið fé samstæðunnar var 78 milljarðar króna
  • Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,57 og eiginfjárhlutfall samstæðunnar án tryggingastarfsemi (CAR) var 33,8% í lok tímabilsins
  • Heildar lausafjárþekjuhlutfall (LCR) samstæðunnar var 290%
  • Heildareignir í stýringu námu 528 milljörðum króna
  • Sjálfbærniskýrsla Kviku fyrir árið 2021 kemur út samhliða birtingu ársreiknings

Kynningarfundur fyrir hluthafa og markaðsaðila verður haldinn kl. 16:15 fimmtudaginn 24. febrúar. Fundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum bankans, á 9. hæð í Katrínartúni 2, 105 Reykjavík. Fundinum verður jafnframt streymt á íslensku á eftirfarandi vefslóð en upptaka með enskum texta verður gerð aðgengileg á vef. Hægt verður að nálgast streymið hér.

Góð afkoma á öllum sviðum

Hagnaður samstæðu Kviku fyrir skatta á árinu 2021 nam 10.487 milljónum króna. Samruni Kviku, TM hf. („TM“) og Lykils fjármögnunar hf. („Lykill fjármögnun“) átti sér stað í lok mars 2021 og því er rekstur TM og Lykils fjármögnunar ekki hluti af rekstrarreikningi samstæðunnar fyrstu þrjá mánuðina. Hagnaður TM og Lykils fjármögnunar fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi nam 1.518 milljónum króna og því er samanlagður hagnaður Kviku, TM og Lykils fjármögnunar fyrir skatta 12.004 milljónir króna á árinu.


Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár (e. return on weighted tangible equity) fyrir skatta var 34,7% á tímabilinu.

Hreinar vaxtatekjur samstæðu Kviku námu 4.646 milljónum króna og jukust um 158% miðað við árið áður og má aukningu vaxtatekna helst skýra með stækkun og breyttri samsetningu lánasafns vegna samruna við Lykil fjármögnun, breyttri samsetningu lausafjáreigna ásamt hagstæðri þróun fjármagnskostnaðar. Jákvæðhrein virðisbreyting var 139 milljónir króna á árinu samanborið við hreina virðisrýrnun upp á 317 milljónir árið á undan. Hreinar fjárfestingartekjur námu 5.672 milljónum króna þar sem góð ávöxtun var á flestum þeim eignamörkuðum sem bankinn starfar á. Þóknanatekjur héldu áfram að vaxa og námu hreinar þóknanatekjur 6.828 milljónum króna sem er 15% aukning frá fyrra ári. Afskriftir óefnislegra eigna sem eru tilkomnar vegna kaupverðsútdeilinga námu 319 milljónum króna á árinu.

Lágt samsett hlutfall TM og ávöxtun fjáreigna góð

Samsett hlutfall TM nam 87,2% á fjórða ársfjórðungi samanborið við 94,9% á sama tímabili árið á undan. Fjárfestingartekjur tryggingafélagsins námu 1.291 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi og ávöxtun eignasafnsins því 3,7% á tímabilinu. Samsett hlutfall TM á árinu 2021 nam því 88,7% og ávöxtun fjáreigna var 17,7%.

Efnahagur stækkar vegna samruna

Heildareignir samstæðu Kviku jukust um 100% eða um 123 milljarða króna á árinu 2021 og námu 246 milljörðum króna. Útlán til viðskiptavina jukust um 42 milljarða króna og er aukningin að mestu til komin vegna samrunans. Hlutfall útlána til einstaklinga jókst úr því að vera 19% af öllum útlánum í 44% í lok árs. Innstæður í bönkum og Seðlabanka ásamt ríkistryggðum verðbréfum námu 65 milljörðum króna en heildar lausafjáreignir voru 100 milljarðar króna og jukust um 24 milljarða króna á árinu. Heildar lausafjárþekja (LCR) samstæðunnar án tryggingastarfsemi nam 290% í lok ársins sem var vel umfram 100% lágmarkskröfu eftirlitsaðila.


Eigið fé samstæðunnar jókst við samruna Kviku, TM og Lykils fjármögnunar og var 78 milljarðar króna í lok árs 2021 samanborið við 19 milljarða króna í lok 2020. Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar (Kviku og dótturfélaga, þ. á m. tryggingastarfsemi) var 1,57 í lok ársins og áhættuvegið eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) án áhrifa TM nam 33,8%, en eiginfjárkrafa ásamt eiginfjáraukum eftirlitsaðila er 20,6%.

Kaup á Ortus Secured Finance frágengin

Kvika hefur, í gegnum dótturfélag sitt Kvika Securities Ltd. ("KSL"), gengið frá kaupum á meirihluta hlutafjár í sérhæfða lánafyrirtækinu Ortus Secured Finance Ltd. (“OSF”) frá Stoðum hf. og öðrum hluthöfum, en tilkynnt var um undirritun viljayfirlýsingar um kaupin í október síðastliðnum. Eftir kaupin mun Kvika eiga tæplega 80% hlutfjár í OSF en Kvika eignaðist 15% hlut í félaginu árið 201. Með kaupunum stækkar efnahagsreikningur samstæðu Kviku um rúmlega 7%. Gert er ráð fyrir að OSF skili hagnaði fyrir skatta að andvirði 900 milljóna króna á árinu 2022. Kaupin hafa ekki áhrif á afkomu ársins 2021. Nánar er fjallað um kaupin í sérstakri kauphallartilkynningu dagsettri 24. febrúar 2022.

Kvika getur út sína fyrstu sjálfbærniskýrslu

Samhliða birtingu ársuppgjörs hefur Kvika gefið út fyrstu sjálfbærniskýrslu félagsins. Kvika hefur síðastliðin ár birt samfélagsuppgjör, en þær upplýsingar sem þar koma fram eru nú hluti af sjálfbærniskýrslunni. Skýrslan gefur heildstæða mynd af því hvernig unnið er að sjálfbærni og samfélagsábyrgð hjá félaginu á samstæðugrunni og byggir á UFS-leiðbeiningum Nasdaq (e. ESG Reporting Guide 2.0) en auk þess eru GRI-staðlarnir (e. GRI Standards) hafðir til hliðsjónar og viðeigandi vísum svarað. Úthlutunar- og áhrifaskýrsla fyrir árið 2021 í tengslum við græna fjármálaumgjörð Kviku er gefin út sem hluti af sjálfbærniskýrslunni.

Breyting á framkvæmdastjórn samstæðu Kviku

Ákveðið hefur verið að einfalda skipurit samstæðunnar með þeim hætti að starfsemin samanstendur nú af fjórum megin tekjueiningum; viðskiptabankastarfsemi, fjárfestingabankastarfsemi, eignastýringu og vátryggingastarfsemi. Undir fjárfestingabankasvið falla bæði markaðsviðskipti og fyrirtækjaráðgjöf og framkvæmdastjóri sviðsins verður Bjarni Eyvinds Þrastarson. Markaðsviðskipti og fyrirtækjaráðgjöf verða þó áfram aðskilin í framkvæmd í samræmi við lagakröfur og mun Baldur Stefánsson áfram stýra fyrirtækjaráðgjöf Kviku.

Afkomuspá fyrir árið 2022

Afkomuspá samstæðu Kviku fyrir árið 2022 gerir ráð fyrir 8,0 – 9,0 milljarða króna hagnaði fyrir skatta sem samsvarar 18,3% – 20,6% arðsemi á efnislegt eigið fé samstæðunnar. Afkomuspáin inniheldur 376 milljóna afskriftir óefnislegra eigna vegna kaupverðsútdeilinga. Nánari forsendur má sjá í fjárfestakynningu.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku:

„Árið 2021 var viðburðarríkt fyrir Kviku en á árinu sameinaðist bankinn við TM og Lykil fjármögnun. Samruninn gekk vonum framar og betur hefur gengið að ná fjárhagslegum markmiðum samrunans en væntingar stóðu til.
Sameinað félag er fjárhagslega sterkt, byggir á traustum stoðum og er með mikil tækifæri til vaxtar. Samstæða Kviku ætlar sér að vera leiðandi í að umbylta fjármálaþjónustu á Íslandi og beita sér fyrir aukinni samkeppni. Með kaupum á fjártæknifélögunum Aur og Netgíró á síðasta ári fjölgaði viðskiptavinum félagsins verulega.
Þá hefur sjálfbærni fengið aukið vægi innan samstæðunnar og það er einkar ánægjulegt að sjá fyrstu sjálfbærniskýrslu Kviku líta dagsins ljós, en skýrslan gefur heildstæða mynd af því hvernig unnið er að sjálfbærni og samfélagsábyrgð hjá félaginu. Önnur gleðileg tímamót urðu síðasta haust þegar bankinn gaf út sína fyrstu grænu fjármálaumgjörð og gaf í framhaldi út fyrsta græna skuldabréf bankans þar sem eftirspurn var framar björtustu vonum.
Staða Kviku er einstök því félagið er með litla markaðshlutdeild í mörgum af lykilstarfsviðum sínum en þrátt fyrir það býr það yfir fjárhagslegum styrk, fjölda viðskiptavina og innviðum til þess að auka markaðshlutdeild sína.
Í desember kynnti félagið sjö markmið til þriggja ára og er stefna félagsins því skýr. Markmiðin fela í sér að fjölga einstaklingum í viðskiptum, auka markaðshlutdeild í tryggingum og eignastýringu, auka vægi starfsemi í Bretlandi, bæta fjármögnunarkjör bankans, vera ábyrgur þátttakandi í samfélaginu og skila áframhaldandi arðsömum rekstri.
Í samræmi við þessa stefnu hefur verið gengið frá kaupum á meirihluta hlutafjár breska lánafélagsins Ortus Secured Finance, sem ég tel geta orðið ein af áhugaverðustu fyrirtækjakaupum félagsins.“

Kvika - Consolidated Financial Statements 31.12.2021
Kvika - 12M 2021 Presentation
• Vefstreymi - kynning

Til baka