17. febrúar 2021
Á stjórnarfundi þann 17. febrúar 2021 samþykktu stjórn og forstjóri ársreikning samstæðu Kviku banka hf. fyrir árið 2020.
Helstu atriði úr ársreikningi
Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn fimmtudaginn 18. febrúar kl. 11:30. Fundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum bankans, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík. Léttar veitingar verða í boði. Meðfylgjandi er fjárfestakynning.
Fyrirmælum yfirvalda vegna samkomutakmarkana verður fylgt í hvívetna og eru fundargestir beðnir um að boða komu sína fyrirfram á netfangið fjarfestatengsl@kvika.is. Fundinum verður jafnframt streymt: https://www.kvika.is/fjarfestaupplysingar/fjarfestakynning-18-februar-2021/.
Hægt er að senda tölvupóst með spurningum fyrir fund eða á meðan á honum stendur á fjarfestatengsl@kvika.is.
Góð afkoma og vöxtur í öllum tekjustofnum
Hagnaður Kviku banka hf. fyrir skatta á árinu 2020 nam 2.339 milljónum króna og var lítillega yfir uppfærðri afkomuspá bankans sem hljóðaði upp á 2.000 - 2.300 m.kr. hagnað fyrir skatta. Hagnaður eftir skatta nam 2.273 milljónum króna. Arðsemi eigin fjár á árinu var 14,2% en arðsemi eigin fjár á fjórða ársfjórðungi nam 21,9%.
Hreinar vaxtatekjur námu 1.800 milljónum króna og jukust lítillega á milli ára. Hreinar þóknanatekjur námu 5.956 milljónum króna og jukust um 24% á milli ára. Fjárfestingartekjur námu 833 milljónum króna og jukust um 25% á milli ára. Hrein virðisbreyting var neikvæð um 317 milljónir króna og skýrist að hluta af varúðarfærslum vegna COVID-19.
Rekstrarkostnaður nam 5.724 milljónum króna og hækkaði um 13% á milli ára. Hækkunin skýrist að mestu leyti vegna stofnunar á KKV í London á árinu 2020 sem og einskiptiskostnaðar vegna kaupa á Netgíró hf. og fyrirhugaðrar sameininingar við TM hf. og Lykil fjármögnun hf.
Efnahagsreikningur stækkar á milli ára en stærð útlánasafns er lítið breytt
Í lok árs 2020 námu heildareignir 123,2 milljörðum króna samanborið við 105,6 milljarða króna í lok árs 2019. Útlán til viðskiptavina námu 29,3 milljörðum króna í lok árs og drógust saman um 0,8 milljarða króna á árinu. Handbært fé og innstæður í Seðlabanka námu 28,9 milljörðum króna í lok árs en því til viðbótar námu ríkistryggð skuldabréf 33,0 milljörðum króna. Lausafjárstaða bankans er því mjög sterk og var lausafjárhlutfall 266% í lok árs samanborið við 246% í lok árs 2019 og var langt umfram kröfur um 100% lágmarksþekju. Stefnt er að lækkun hlutfallsins á næstu mánuðum en það er töluvert umfram langtímamarkmið bankans.
Eigið fé nam 19,2 milljörðum króna og var áhættuvegið eiginfjárhlutfall 28,3% samanborið við 24,1% í lok árs 2019. Var eiginfjárhlutfallið talsvert umfram 20,6% eiginfjárkröfu eftirlitsaðila, sem síðast var uppfærð þann 18. mars 2020.
Afkoma 2021 áætluð 2.600 - 3.000 milljónir króna fyrir skatta
Áætlunin gerir ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta verði á bilinu 2.600 – 3.000 milljónir króna. Afkoma bankans getur vikið frá áætlun, meðal annars vegna markaðsaðstæðna og annarra ófyrirséða atburða.
Stefnt er að samruna við TM hf. og Lykil fjármögnun hf. sem áætlað er að verði fyrir lok fyrsta ársfjórðungs. Þar sem eftirlitsaðilar og hlutahafafundir félaganna hafa ekki samþykkt samrunann þá gerir áætlunin ekki ráð fyrir honum. Ef af samruna verður munu forsendur áætlunar breytast verulega. Eftir samruna verður birt ný áætlun sameinaðs félags.
Fyrirhuguð sameining Kviku banka hf. og TM hf.
Þann 28. september samþykktu stjórnir Kviku banka hf. og TM hf. að hefja viðræður um sameiningu félaganna. Hluthafar í TM hf. fá sem endurgjald fyrir hlutabréf sín 2.509.934.076 hluti í sameinuðu félagi. Sameiningin er háð samþykki eftirlitsaðila og hluthafa en gert er ráð fyrir að boða til hluthafafundar í báðum félögum fyrir lok mars.
Marinó Örn Tryggvason forstjóri Kviku banka hf.:
„Árið 2020 fól í sér margar áskoranir fyrir fólk og fyrirtæki. Ég er stoltur af samstarfsfólki mínu sem hefur staðið sig einstaklega vel í að takast á við þessar áskoranir. Niðurstaðan kemur fram í rekstri bankans sem gekk vonum framar á síðasta ári.
Á undanförnum árum hefur Kvika breyst úr því að vera lítill banki í að verða öflugt fjármálafyrirtæki. Reksturinn gengur vel og fjárhagsstaða bankans er sterk. Félagið stendur nú á tímamótum því fyrirhuguð er sameining við TM hf. og Lykil fjármögnun hf. Sameinað félag verður eitt öflugasta félag landsins sem hefur allar forsendur til að ná árangri með aukinni samkeppni og nýjungum fyrir viðskiptavini. Það eru spennandi tímar framundan.“