15. febrúar 2024

Ársreikningur Kviku banka 2023 og afkoma á fjórða ársfjórðungi

Kvika banki hf.: Ársreikningur Kviku banka 2023 og afkoma á fjórða ársfjórðungi

Á stjórnarfundi þann 15. febrúar 2024 samþykktu stjórn og forstjóri ársreikning samstæðu Kviku banka hf. („Kvika“) fyrir árið 2023.

Í samstæðureikningi Kviku fyrir árið 2023 er tryggingafélagið TM tryggingar hf. („TM“) flokkað sem eign haldið til sölu. Þar af leiðandi og í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla færir samstæðan tekjur af tryggingastarfsemi sinni í einni línu í rekstrarreikningi sem hagnað eftir skatta af aflagðri starfsemi. Samanburðartölur við rekstur ársins 2022 hafa verið uppfærðar til samræmis.

Helstu atriði ársreiknings og afkomu 2023:

• Hagnaður fyrir skatta, að meðtalinni afkomu TM, nam 5.245 milljónum króna, samanborið við 5.621 m.kr. árið 2022 og lækkar um 7% frá árinu áður.

• Hagnaður samstæðunnar eftir skatta nam 4.034 milljónum króna, samanborið við 4.913 m.kr. árið 2022 og lækkar um 18% frá árinu áður.

• Arðsemi efnislegs eigin fjár (RoTE) fyrir skatta var 12,1%, samanborið við 13,1% árið 2022.

• Hagnaður á hlut nam 0,84 kr. á árinu 2023, samanborið við 1,02 kr. árið 2022.

Helstu tekjuliðir af banka- og eignastýringarstarfsemi:

• Hreinar vaxtatekjur námu 8.021 milljónum króna á árinu, samanborið við 7.085 m.kr. árið 2022 og hækkuðu um 13% frá fyrra ári.

• Vaxtamunur var 3,6% á árinu 2023.

• Hreinar þóknanatekjur námu 5.916 milljónum króna, samanborið við 6.414 m.kr. árið 2022 og lækkuðu um 8% frá fyrra ári.

• Hreinar fjárfestingatekjur námu 442 milljónum króna, samanborið við 278 m.kr. árið 2022 og hækkuðu um 59% frá fyrra ári.

Tekjur af tryggingastarfsemi:

• Hagnaður tryggingafélagsins TM eftir skatta er samandreginn í einni línu í rekstrareikningi sem eign haldið til sölu og nam 1.730 milljónum króna á árinu, samanborið við 560 m.kr. árið 2022 og hækkaði því um 209% frá árinu áður.

• Samsett hlutfall trygginga nam 93,6%, samanborið við 94,2% árið 2022.

Helstu atriði efnahags:

• Innlán frá viðskiptavinum námu 134 milljörðum króna, samanborið við 112 ma.kr. árið 2022 og jukust um 20% milli ára.

• Útlán til viðskiptavina voru 136 milljarðar króna, samanborið við 107 ma.kr. árið 2022 og jukust um 27% milli ára.

• Heildareignir námu 335 milljörðum króna, samanborið við 300 ma.kr. árið 2022.

• Eigið fé samstæðunnar var 82 milljarðar króna í lok ársins, samanborið við 81 ma.kr. árið 2022.• Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,25 í lok ársins, samanborið við 1,36 árið 2022 og eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) var 22,6%, samanborið við 23,5% árið 2022.

• Heildar lausafjárþekjuhlutfall (LCR) samstæðunnar var 247%, samanborið við 320% árið 2022.

• Heildareignir í stýringu námu 470 milljörðum króna, samanborið við 462 ma.kr. árið 2022.

Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs (4F 2023)

• Hagnaður fyrir skatta, að meðtalinni afkomu TM, nam 1.427 m.kr. á 4F 2023, samanborið við 1.613 m.kr. á 4F 2022 og lækkar um 13% frá árinu áður.

• Hagnaður samstæðunnar eftir skatta nam 1.502 m.kr. á 4F 2023, samanborið við 1.711 m.kr. á 4F 2022 og lækkar um 12% á milli ára.

• Arðsemi efnislegs eigin fjár (RoTE) fyrir skatta var 13,9%, samanborið við 15,3% á fjórða fjórðungi árið 2022.

• Hagnaður á hlut nam 0,33 kr. á 4F 2023, samanborið við 0,36 kr. á 4F 2022.

Helstu tekjuliðir af banka- og eignastýringarstarfsemi:

• Hreinar vaxtatekjur námu 2.331 m.kr. á 4F 2023, samanborið við 1.639 m.kr. á 4F 2022 og hækkuðu því um 39% frá fyrra ári.

• Vaxtamunur var 3,9% á 4F 2023, samanborið við 3,4% á 4F 2022.

• Hreinar þóknanatekjur voru 1.578 m.kr. á 4F 2023, samanborið við 1.541 m.kr. á 4F 2022 og hækkuðu því um 2% frá fyrra ári.

• Hreinar fjárfestingatekjur voru neikvæðar um 11 m.kr. á 4F 2023, samanborið við 33 m.kr. hagnað á 4F 2022.

Tekjur af tryggingastarfsemi:

• Hagnaður tryggingafélagsins TM eftir skatta er samandreginn í einni línu í rekstrareikningi sem eign haldið til sölu og nam 914 milljónum króna á 4F 2023, samanborið við 1.005 m.kr. á 4F 2022 og lækkaði því um 9% frá árinu áður.

• Samsett hlutfall trygginga nam 92,5%, samanborið við 89,4% á fjórða ársfjórðungi 2022.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku:

„Rekstur Kviku á síðasta ári var traustur og afkoman viðunandi í ljósi krefjandi aðstæðna á fjármálamörkuðum. Hagnaður fyrir skatta, að tryggingafélaginu TM meðtöldu, nam 5,3 milljörðum króna á árinu 2023 og arðsemi efnislegs eigin fjár fyrir skatta var 12,1% á árinu.

Hreinar vaxtatekjur jukust um 13% á milli ára, en aðstæður framan af ári voru Kviku óhagstæðar vegna ört hækkandi vaxta þar sem vaxtakostnaður innlána hækkaði hraðar en vaxtatekjur vegna útlána. Á seinni hluta árs dró úr þessari þróun eftir að stýrivextir hættu að hækka og ber afkoma fjórða ársfjórðungs þess merki þar sem hreinar vaxtatekjur jukust um 39% á fjórðungnum samanborið við sama tímabil árið áður.

Markaðsaðstæður höfðu áhrif á hreinar þóknanatekjur sem drógust saman milli ára, sér í lagi vegna lægri þóknana í eignastýringu sem og hjá fyrirtækjum og mörkuðum. En jákvæður viðsnúningur varð á síðasta ársfjórðungi vegna hækkandi þóknanatekna í eignastýringu og á viðskiptabankasviði vegna aukinna umsvifa hjá Straumi.Kvika er í dag með sterka eiginfjárstöðu, er vel fjármögnuð og með fjölbreytt og vel dreift lánasafn, sem er öfundsverð staða og gefur góð fyrirheit um rekstur ársins 2024.

Öll vörumerki okkar í einstaklingsþjónustu eru í öflugum vexti þar sem m.a. hefur verið lögð áhersla á að koma nýjum vörum og þjónustu á markað. Innlán hjá Auði jukust um nær 50%, metár var í útlánum hjá Lykli og Netgíró hélt áfram að vaxa. Aur, sem hefur verið í framsækinni þróun býður nú uppá fjölbreytta bankaþjónustu og hefur gefið út yfir 27.000 ný greiðslukort. Straumur, sem tók til starfa á síðasta ári, er í mikilli sókn með um 25% hlutdeild á innlendum greiðslumiðlunarmarkaði.

Hlutdeild í markaðsviðskiptum hefur farið vaxandi þar sem við erum með hæstu markaðshlutdeild í skuldabréfamiðlun á Nasdaq Iceland. Eignir í stýringu fara vaxandi og sjóðastýring Kviku eignastýringar hefur verið að skila hæstu ávöxtun á markaðnum. Þá er Kvika eini íslenski bankinn sem býður þjónustu með starfsemi í Bretlandi og hefur afkoman þar farið batnandi með auknum vaxtamun og vexti lánabókar.

Tryggingastarfsemin hjá TM skilaði framúrskarandi rekstri á síðasta ári og einnig á fjórða ársfjórðungi. Söluferlið á TM, sem er leitt af fyrirtækjaráðgjöf Kviku, gengur vel en um áramót var fjórum aðilum boðið að halda áfram í söluferlinu. Við gerum enn ráð fyrir að sölu eða skráningu TM verði lokið á öðrum eða þriðja ársfjórðungi ársins 2024.

Kvika hefur uppfært og birtir nú fjárhagsleg markmið bankans sem eru að arðsemi efnislegs eiginfjár fyrir skatta verði að jafnaði 20% eða hærri, að eiginfjárhlutfall bankans verði 2-4% yfir kröfum eftirlitsaðila og að samanlagðar arðgreiðslur og endurkaup verði að lágmarki 25% af hagnaði eftir skatta.

Við munum leggja okkur fram um að arðsemismarkmiði Kviku verði náð með áherslu á að efla starfsemi okkar á sviði viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi auk eignastýringar í kjölfar sölunnar á TM, einföldun starfseminnar og áframhaldandi áherslu á hagkvæmni í rekstri. Þá mun stöðugra vaxtaumhverfi og markaðsaðstæður einnig stuðla að bættri arðsemi bankans.“

Kynningarfundur og fjárfestakynning

Kynningarfundur fyrir hluthafa og markaðsaðila verður haldinn fimmtudaginn 15. febrúar kl. 16.15 í höfuðstöðvum bankans á 9. hæð í Katrínartúni 2, 105 Reykjavík. Fundinum verður jafnframt streymt á íslensku á eftirfarandi vefslóð:

https://kvika.is/kynning-a-uppgjori-2023/

Hægt er að senda tölvupóst með spurningum fyrir fund eða á meðan honum stendur á

fjarfestatengsl@kvika.is

Meðfylgjandi er fjárfestakynning. Að auki mun upptaka með enskum texta vera gerð aðgengileg á vefsvæði Kviku.

Útgáfa sjálfbærniskýrslu 2023

Sjálfbærniskýrsla Kviku fyrir árið 2023 kemur út samhliða birtingu ársreiknings og er birt á vef Kviku.

pdfFjárfestakynning

pdfPDF

Til baka