22. mars 2018
Kvika og Íslenska óperan hafa gert með sér samstarfssamning þar sem Kvika verður bakhjarl Íslensku óperunnar. Samkomulag þess efnis var undirritað fyrr í dag af Ármanni Þorvaldssyni, forstjóra Kviku, og Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, óperustjóra.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir það mikið ánægjuefni að geta stutt við Íslensku óperuna með þessum hætti og það mikilvæga menningarstarf sem þar á sér stað. „Okkur hefur þótt starf Íslensku óperunnar og þau verkefni sem ráðist hefur verið í síðast liðin ár til marks um öflugt og metnaðarfullt starf sem við viljum taka þátt í að efla enn frekar.“
Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri, segir það mikil gleðitíðindi að Kvika verði bakhjarl Íslensku óperunnar. „ Mestu verðmæti listastofnanna eru metnaðarfullir listviðburðir sem mikilvægt er að búi við stuðning opinberra aðila og öflugra fyrirtækja á borð við Kviku. Þessi stuðningur er okkur afar mikils virði og mun efla menningarstarf okkar enn frekar.“