24. janúar 2017
Robert Parker hefur árlega haldið fyrirlestra á Íslandi frá árinu 2004 í samstarfi við Kviku og forvera bankans. Hann hefur áratuga reynslu af erlendum fjármálamörkuðum og víðtæka þekkingu á öllum eignarflokkum. Róbert þekkir vel til Íslands og íslenskir fjárfestar kunna vel að meta þekkingu hans og ráðgjöf.
Robert hefur gegnt lykilhlutverki hjá Credit Suisse til fjölda ára við greiningu markaða, ráðgjöf og eignastýringu. Hann er í hópi virtustu ráðgjafa í Evrópu þegar kemur að bankamálum og ráðgjöf vegna alþjóðafjárfestinga.
Fjárfestingartækifæri og horfur á erlendum mörkuðum
Fimmtudaginn 26. janúar næstkomandi stendur Kvika fyrir ráðstefnu á Grand Hótel í Reykjavík um fjárfestingar á erlendum mörkuðum. Þar mun Robert fjalla um horfur á erlendum mörkuðum og ræða möguleg fjárfestingartækifæri sem kunna að liggja í mismunandi eignarflokkum.
Halda hlutabréfamarkaðir áfram að hækka?
Þrátt fyrir pólitíska óvissu í kjölfar Brexit og kosninga í Bandaríkjunum, hækkuðu hlutabréfamarkaðir á árinu 2017. Geta alþjóðlegir hlutabréfamarkaðir haldið áfram að hækka eftir samfelldar hækkanir frá árinu 2011? Hverjar verða afleiðingarnar af hækkandi vaxtastigi í Bandaríkjunum?
Robert mun leitast við að svara þessum spurningum og fleiri í umfjöllun sinni á ráðstefnu Kviku á fimmtudaginn.