07. október 2016
Bandaríska eignastýringarfélagið Pt Capital Advisors hefur náð samningum við Novator um kaup á öllu hlutafé í Nova. Samningar eru háðir hefðbundnum fyrirvörum, en bæði kaupandi og seljandi eru bjartsýnir á að eigendaskipti gangi að fullu í gegn á næstu mánuðum. Kaupverðið er trúnaðarmál. Kvika hefur leitt söluferlið af hálfu seljanda.
Nova tók formlega til starfa í desember 2007 og setti strax mark sitt á fjarskiptamarkaðinn með nýju viðskiptamódeli sem lagði áherslu á frí símtöl innan kerfis. Til að byrja með var áherslan á ódýr símtöl og 3G farsíma en með aukinni snjallsímaeign var meiri áhersla lögð á netið í símann. Nova var fyrsta símafyrirtækið á Íslandi til að bjóða 4G þjónustu í apríl 2013 sem skilaði félaginu gríðarlegum vexti og í lok árs 2015 var Nova stærsta farsímafélagið á Íslandi.
Pt Capital Advisors er dótturfélag Pt Capital. Fyrirtækið, sem er með aðsetur í Anchorage, Alaska, leggur megin áherslu á fjárfestingar á norðurslóðum. Félög innan Pt samstæðunnar fjárfesta í tækifærum í Alaska, norðanverðu Kanada, Grænlandi og Íslandi. Nova er fyrsta fjárfesting Pt Capital Advisors hér á landi.