18. febrúar 2016

Nýir starfsmenn í eignastýringu Kviku

Ásgeir Baldurs hefur verið ráðinn forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga innan eignastýringarsviðs Kviku. Ásgeir hefur fjölþætta reynslu úr íslensku atvinulífi og af stjórnun fyrirtækja. Ásgeir gekk til liðs við fyrirtækjaráðgjöf Kviku í mars 2015. Áður starfaði Ásgeir sem stjórnandi hjá VÍS á árunum 2000 til 2007 og var forstjóri  félagsins á árunum 2006 til 2007.  Ásgeir starfaði einnig um sex ára skeið sem ráðgjafi og meðeigandi hjá ráðgjafarfyrirtækinu Expectus áður en hann gekk til liðs við Kviku. Ásgeir hefur setið í stjórnum fjölmargra íslenskra og erlendra fyrirtækja.

Hildur Eiríksdóttir hefur verið ráðin til einkabankaþjónustu Kviku. Hildur hefur víðtæka reynslu innan eignastýringar og einkabankaþjónustu og kemur til Kviku frá Nordea Bank í Lúxemburg. Hildur starfaði sem viðskiptastjóri í einkabankaþjónustu Nordea frá ársbyrjun 2013. Áður starfaði Hildur um árabil hjá Íslandsbanka í eignastýringu og einkabankaþjónustu og síðar Íslandsbanka í Luxemburg. Árið 2006 hóf Hildur störf hjá Kaupþingi í Lúxemburg og starfaði þar sem viðskiptastjóri í einkabankaþjónustu til ársins 2010. Þá var Hildur ein af stofnendum Greenleaf Financial Luxembourg og tók hún virkan þátt í að koma félaginu á laggirnar og byggja það upp fram til ársins 2012 þegar félagið var selt.

Eignastýring er burðarás Kviku og þar starfar bankinn á breiðum grunni. Eftir markvissa uppbyggingu síðustu ára veitir eignastýring Kviku alhliða þjónustu á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Kvika hefur haslað sér völl á sviði sérhæfðra fjárfestinga meðal annars með fasteignaverkefnum og stefnir nú á að byggja þessa starfsemi upp enn frekar með það að markmiði að geta boðið viðskiptavinum bankans upp á fjölbreyttari fjárfestingarkosti.

Til baka