18. maí 2018
Kvika hefur til margra ára verið aðalsamstarfsaðili UNICEF á Íslandi á sviði bankaþjónustu, auk þess að vera sérstakur velunnari heimsforeldra. Þá hefur Kvika stutt við rekstur UNICEF á Íslandi og kostun ýmissa verkefna. Í fyrra tók Kvika þátt í kostun á Degi rauða nefsins en í ár var ákveðið að taka þátt í kostun á neyðarátaki fyrir börn í Jemen.
Yfirskrift neyðarátaks UNICEF fyrir börn í Jemen er „Má ég segja þér soldið?“. Með þessu átaki er sjónum almennings beint að neyð barna í Jemen og börnum í landinu leyft að segja sögu sína. Neyðarátakið er byggt á raunverulegum sögum barna sem hafa upplifað hörmungar sem heimurinn horfir framhjá, á hverjum einasta degi.
Kvika hvetur alla til að leggja þessu mikilvæga átaki lið. Hægt er að hjálpa með því að senda SMS-ið JEMEN í nr. 1900 og gefa þannig 1900 krónur í neyðaraðgerðir UNICEF í Jemen. Sú upphæð samsvarar t.d rúmlega tveggja vikna meðferð gegn vannæringu fyrir eitt barn.