21. desember 2021
Tilgangurinn með stofnun sjóðsins er að búa til vettvang fyrir fjárfesta að koma saman og fjárfesta í landbótum sem fela í sér mótvægisaðgerðir við loftslagsbreytingar. Ráðgert er að slíkar landbætur verði til að byrja með vottuð skógrækt, en jafnframt koma aðrar mótvægisaðgerðir til greina, svo sem endurheimt votlendis og aðrar aðgerðir til að draga úr losun vegna landnotkunar, samhliða framleiðslu vottaðra kolefniseininga.
Miðað er við að sjóðurinn fjárfesti í landbótum sem gefa af sér vottaðar kolefniseiningar sem heimilt er að skrá í loftslagsskrá og telja gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Þær landbætur sem fyrirhugaðar eru með stofnun sjóðsins eru arðsamar, atvinnuskapandi og styðja við umbreytingu landbúnaðar. Stefnt er að því að sjóðurinn styðji með þessum hætti við þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar, þ.e. efnahag, samfélagið og umhverfis- og loftslagsmál.
Við stofnun sjóðsins er meðal annars horft til 17. heimsmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna um samvinnu og samstarf hagaðila (opinbera geirans, einkaaðila og borgaranna) og stuðning þeirra við verkefni sem stuðla að sjálfbærri þróun samfélagsins.
Það er sameiginlegur vilji aðila með viljayfirlýsingunni sem hefur verið undirrituð að vinna að því að greina rekstrarhagræði slíks sjóðs og móta helstu verkþætti sem snúa að heppilegri útfærslu. Stefnt er á að niðurstaða um áframhald verkefnisins liggi fyrir snemma á árinu 2022.
Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa Grænna Lausna: Stór hluti þeirra gróðurhúsalofttegunda sem losaðar eru út í andrúmsloftið eiga rætur að rekja til hnignunar vistkerfa. Með landbótum er hægt að binda kolefni, miðla vatni, vernda og byggja upp jarðveg, hreinsa loft, veita skjól og styrkja búsvæði fjölda lífvera. Í landbótum felast líka mikilvæg viðskiptatækifæri, meðal annars í vottuðum kolefniseiningum, sem verða verðmæt auðlind sem hægt verður að selja á alþjóðlegum mörkuðum. Nýsköpun í grænum iðnaði, fjármálum og landbúnaði verður einn af hornsteinum verkefnisins.
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku: Loftslagsmál eru án efa mikilvægasta verkefni okkar kynslóðar og ég hef trú á að einkaaðilar séu vel til þess fallnir að finna skynsamar lausnir. Framtak á borð við loftslagssjóðinn getur verið skynsamleg og arðbær leið fyrir fjárfesta til að hafa áhrif. Ísland er í fararbroddi varðandi endurnýjanlega orku og getur einnig orðið leiðandi í loftslagsmálum. Ef vel tekst til geta loftslagsverkefni orðið mikilvægur útflutningsatvinnuvegur í framtíðinni.
Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar: Kapphlaup er hafið í átt að kolefnishlutleysi í heiminum og er ljóst að það markmið næst ekki nema einkaaðilar leggi sitt af mörkum og vinni saman. Þessi nýi sjóður sem aðilar hafa skuldbundið sig um að kanna rekstrarhæfi á hefur alla burði til þess að vera mikilvægt framlag, sem jafnframt felur í sér raunveruleg og mælanleg áhrif á stöðu loftslagsmála á Íslandi.
Nánari upplýsingar veita:
Klappir Grænar lausnir:
Jón Ágúst Þorsteinsson,
Forstjóri Klappa Græna lausna / 664 9200
Kvika banki:
Marinó Örn Tryggvason
Forstjóri Kviku / 540 3200
Kvika eignastýring:
Hannes Frímann Hrólfsson,
Framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar / 522 0010