15. ágúst 2017
Marinó Örn Tryggvason hefur hafið störf sem aðstoðarforstjóri Kviku. Marinó starfaði áður í eignastýringu Arion banka og forvera bankans frá árinu 2002. Síðast starfaði Marinó sem aðstoðarframkvæmdastjóri eignastýringar Arion frá árinu 2014 og fyrir þann tíma var hann forstöðumaður eignastýringar fagfjárfesta frá 2007.
Marinó mun að auki sinna hlutverki framkvæmdastjóra eignastýringar Kviku þar til fyrirhugaður samruni Kviku og Virðingar hefur gengið í gegn. Að því gefnu að áætlanir um samruna gangi eftir mun Hannes Frímann Hrólfsson taka við starfi framkvæmdastjóra eignastýringar í kjölfar samruna.
Hannes hefur starfað á fjármálamarkaði í hátt í tvo áratugi. Hann hefur verið forstjóri Virðingar frá 2014 en áður starfaði hann hjá Auði Capital frá 2012, lengst af sem forstjóri. Fyrir þann tíma starfaði Hannes hjá Arion banka og forvera bankans og var framkvæmdastjóri og meðstofnandi Tinda verðbréfa.
Kvika undirritaði nýverið samninga um kaup á öllu hlutafé í Virðingu hf. og Öldu sjóðum hf. og eru kaupin nú til umfjöllunar hjá eftirlitsstofnunum. Með kaupunum á Virðingu og Öldu verður Kvika einn umsvifamesti aðili í eignastýringu á Íslandi með um 280 milljarða króna í stýringu.