17. nóvember 2022
Magnús Þór Gylfason hefur verið ráðinn til Kviku á skrifstofu forstjóra. Hann mun hefja störf snemma á nýju ári.
Magnús kemur til Kviku frá Landsvirkjun þar sem hann hefur verið forstöðumaður samskipta síðastliðin 11 ár. Áður starfaði hann hjá Reykjavíkurborg sem skrifstofustjóri og aðstoðarmaður borgarstjóra og þá var hann um skeið framkvæmdastjóri samskiptasviðs Rio Tinto Alcan á Íslandi. Magnús er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur meðfram vinnu lagt stund á MBM framhaldsnám í sama skóla með áherslu á stjórnun og stefnumótun.
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka:
„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Magnús til liðs við Kviku. Reynsla hans og þekking mun koma sér vel í þeim spennandi verkefnum sem eru framundan hjá okkur. Magnús mun í byrjun meðal annars einbeita sér að stefnumótun og skipulagi samskipta við innri og ytri hagaðila, svo sem upplýsingagjöf til starfsfólks og viðskiptavina. Við hlökkum til að fá hann til starfa.“
Magnús Þór Gylfason:
„Kvika er banki umbreytinga og öll starfsemin ber með sér að það er sannarlega réttnefni. Kvika hugsar til framtíðar og stuðlar að sjálfbæru samfélagi. Það er mikið tilhlökkunarefni að fá að nýta reynslu mína fyrir félagið og vera hluti af þeim öfluga mannauði sem starfar hjá bankanum.“