19. apríl 2016
Kvika er nú viðurkenndur ráðgjafi (e. certified adviser) á First North markaðnum. First North er norrænn hliðarmarkaður fyrir hlutabréfaviðskipti. Markaðurinn er sérsniðinn fyrir félög sem vilja vera á markaði en eiga ef til vill ekki kost á því að vera á aðalmarkaði Norrænu kauphallarinnar. First North er því góður valkostur fyrir ung og smá félög eða félög í vexti sem vilja leita leiða utan Nordic list.
Öll félög skráð á First North verða að hafa samning við viðurkenndan ráðgjafa. Hlutverk viðurkenndra ráðgjafa er að leiðbeina útgefendum á First North í gegnum skráningarferli og ganga úr skugga um að skráningarskilyrði séu uppfyllt.
Þegar um skráningu skuldabréfa er að ræða takmarkast hlutverk viðurkennds ráðgjafa við skráningarferlið sjálft. Þegar um hlutabréf er að ræða hefur viðurkenndur ráðgjafi eftirlit með því að útgefandi haldi áfram að uppfylla skráningarskilyrði, birti opinberlega upplýsingar í samræmi við reglur markaðarins, fræðir útgefanda um skyldur sem á honum hvíla o.s.frv. Viðurkenndur ráðgjafi sinnir jafnframt eftirlitshlutverki fyrir hönd Kauphallar og ber að upplýsa Kauphöllina ef hann telur reglur hafa verið brotnar. Kvika hefur því á grundvelli þessa það hlutverk að liðsinna Kauphöllinni við að standa vörð um gæði markaðarins.