27. janúar 2016
Forstjóri Kviku, Sigurður Atli Jónsson og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu í dag styrktarsamning Kviku og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Samningurinn er til þriggja ára og er endurnýjun á fyrri styrktarsamningi sem undirritaður var í nóvember 2013. Kvika styrkir stofnunina um eina milljón króna á ári næstu þrjú árin.
Alls undirrituðu ellefu fyrirtæki styrktarsamning við stofnunina í dag. Undirritunin fór fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands að viðstaddri Vigdís Finnbogadóttur og fjölda gesta.
Fyrirtækin sem standa að samningunum auk Kviku eru Alvogen, Arion banki, Bláa lónið, Icelandair Group, Íslandsbanki, Íslandshótel, Landsbankinn, N1, Radisson Blu Hótel Saga og Reginn. Alls nema styrkirnir 33,5 milljónum króna á samningstímanum.
Styrkjunum verður varið til daglegrar starfsemi vegna undirbúnings Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, sem mun starfa undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Starfsemi þessa alþjóðlega þekkingarseturs er ætlað að heiðra störf Vigdísar í þágu tungumála og halda áfram því brautryðjendastarfi sem hún hefur unnið á alþjóðavettvangi sem fyrsti og eini velgjörðarsendiherra tungumála í heiminum hjá UNESCO.