02. júlí 2018
Kvika hefur lokið við fjármögnun og stofnun nýs framtakssjóðs sem ber heitið FREYJA. Heildaráskriftarloforð sjóðsins nema 6,2 milljörðum króna og mun sjóðurinn í upphafi vera 3,5 milljarðar.
Freyja mun fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og vinna náið með stjórnendum og meðfjárfestum til að gera góð fyrirtæki enn betri. Sjóðurinn leggur áherslu á að fyrirtækin sem fjárfest er í tileinki sér samfélagslega ábyrgð i daglegum rekstri, setji sér umhverfisstefnu og starfi í samræmi við góða stjórnarhætti. Hluthafar Freyju eru flestir af stærstu lífeyrissjóðum landsins og aðrir fagfjárfestar.
Fyrir rekur Kvika tvo framtakssjóði, Auður I sem stofnaður var árið 2008 og Edda sem stofnaður var árið 2013. Rekstur þessara sjóða hefur gengið vel og skilað fjárfestum ágætis arðsemi. Auður I fjárfesti í átta félögum m.a. TAL, Yggdrasil og Ölgerðinni, en á nú eftir eignarhluti í aðeins tveimur fyrirtækjum, Íslenska Gámafélaginu og Já upplýsingaveitum. Edda á eignarhluti í Íslandshótelum og Securitas eftir að gengið var frá sölu á helmingshlut í Domino´s á Íslandi til sérleyfishafa Domino´s í Bretlandi fyrr á árinu. Skilaði salan yfir 50% árlegri ávöxtun til fjárfesta Eddu.
Eignastýring Kviku er burðarás bankans en bankinn starfar á breiðum grunni og veitir fjárfestum alhliða fjármálaþjónustu á innlendum og erlendum mörkuðum. Heildareignir í stýringu hjá Kviku og dótturfélögum er í dag um 280 milljarðar.
Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku:
Framtakssjóðurinn Freyja er þriðji framtakssjóðurinn í rekstri Kviku. Það er ánægjulegt að sjá að allir helstu fjárfestar í sjóðnum hafa jafnframt fjárfest í fyrri framtakssjóðum okkar og er það merki um tiltrú þeirra á þeim árangri sem við höfum náð sem elsti rekstraraðili framtakssjóða á Íslandi. Framtakssjóðir Kviku hafa tekið virkan þátt í vexti og uppbyggingu margra af stærstu og rótgrónustu fyrirtækja landsins undanfarin ár og munum við áfram leitast við að styðja við uppbyggingu íslensks atvinnulífs með fjárfestingum í þeim fyrirtækjum sem við höfum trúa en þess má geta að þeir framtakssjóðir sem eru í okkar rekstri leggja ríka áherslu á ábyrgar fjárfestingar.
Kvika banki hf.
Kvika er viðskiptabanki með áherslu á fjárfestingarbankastarfsemi, sem sinnir þörfum viðskiptavina á afmörkuðum syllum með fagþekkingu og sérhæfðu vöruframboði. Burðarás Kviku er öflug eignastýring og bankinn veitir fjárfestum alhliða bankaþjónustu. Hjá Kviku starfar samhentur hópur um 100 sérfræðinga sem nær árangri í krafti menntunar, markaðsþekkingar og víðtækrar reynslu. Forstjóri Kviku er Ármann Þorvaldsson og formaður stjórnar er Kristín Pétursdóttir. Eignarhald Kviku er gagnsætt og er hann eini bankinn sem er að fullu í eigu einkaaðila s.s. lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga. Nánar á: www.kvika.is.