25. október 2021

Kvika stefnir á að kaupa meirihluta hlutafjár í Ortus Secured Finance Ltd.

Kvika banki hf. og hluthafar og stjórnendur Ortus Secured Finance Ltd. hafa náð saman um meginskilmála mögulegra kaupa Kviku á meirihluta hlutafjár Ortus.

Ortus er breskt lánafyrirtæki sem veitir fasteignatryggð lán á Bretlandseyjum. Félagið var stofnað árið 2013 og stýrir í dag lánasafni að fjárhæð að jafnvirði um 23 milljarða króna, en um 14,5 milljarðar af því lánasafni eru í beinni eigu Ortus. Heildareignir Kviku munu því aukast um 10% ef af kaupunum verður.

Höfuðstöðvar félagsins eru í London en auk þess starfrækir það skrifstofur í Belfast á Norður Írlandi og í Glasgow á Skotlandi. Frá því að félagið var stofnað hefur það veitt lán að jafnvirði yfir 70 milljarða króna án útlánatapa.

Kvika á, í gegnum dótturfélagið Kvika Securties Ltd. („KSL“), nú þegar samtals 15% af hlutafé í Ortus, sem keypt var árið 2018, en síðan þá hefur Kvika starfað með hluthöfum og stjórnendum félagsins við uppbyggingu þess með góðum árangri. Á því tímabili hafa umsvif Ortus aukist mikið. Gert er ráð fyrir að félagið skili hagnaði eftir skatta að jafngildi rúmlega 600 milljóna króna á árinu 2021, sem er rúmlega 20% aukning frá fyrra ári. Áætlað bókfært virði eiginfjár í árslok 2021 nemur tæplega 4 milljörðum króna.

Í framhaldi af kaupunum er stefnt að því að fjármagnskostnaður Ortus lækki umtalsvert. Væntingar standa til þess að það geri félaginu kleift að bjóða viðskiptavinum fjölbreyttari tegundir fasteignatryggðra lána á hagstæðari kjörum, sem skili sér jafnframt í aukinni arðsemi félagsins.

Stoðir hf. eru í dag stærsti hluthafi Ortus og eiga samtals um 30% af hlutafé Ortus. Í samkomulaginu felst að Stoðir munu, ásamt öðrum hluthöfum, selja allan sinn hlut til Kviku og einnig munu stjórnendur selja hlut af sinni núverandi eign. Í framhaldi af kaupunum mun Kvika eiga tæplega 80% hlut í Ortus. Í ljósi þess að Stoðir er hluthafi í Kviku mun óháður sérfræðingur framkvæma sanngirnismat á viðskiptunum.

Richard Beenstock, forstjóri, og Jon Salisbury, framkvæmdastjóri, sem fyrir eru hluthafar í félaginu, munu áfram eiga hlut í Ortus og halda áfram að stýra því á komandi árum. Örvar Kærnested, sem einnig er hluthafi og hefur verið formaður stjórnar félagsins undanfarin ár, mun einnig halda hlut í félaginu og starfa áfram í stjórn félagsins. Samkomulag er um að Kvika eignist hlutafé Ortus að fullu á næstu fjórum árum og mun kaupverð þeirra hluta, sem síðar verða keyptir, tengjast árangri félagsins á þessu fjögurra ára tímabili.   

Í viljayfirlýsingu vegna viðskiptanna, sem undirrituð hefur verið milli Kviku og seljenda, er gert ráð fyrir að verðmæti hlutafjár Ortus nemi um 4,2 milljörðum króna og af því á KSL rúmlega 600 milljónir króna. Að auki er gert ráð fyrir að Kvika kaupi allt útgefið forgangshlutafé Ortus. Verðmæti þess er tæpir 2 milljarðar króna en af því á Kvika fyrir tæplega 600 milljónir króna. Kvika mun greiða fyrir hlutina með reiðufé og vegna sterkrar eiginfjárstöðu bankans er ekki þörf á útgáfu nýs hlutafjár vegna kaupanna.

Unnið verður að gerð áreiðanleikakannana og skjalagerð á næstu vikum. Stefnt er að því að ljúka viðskiptunum á næstu mánuðum.

Kaupin eru háð samþykki eftirlitsaðila og endanlegu samþykki stjórnar Kviku að loknum áreiðanleikakönnunum og skjalagerð. Frekari upplýsingar um áhrif á rekstur og efnahag Kviku verða birtar í síðasta lagi við lúkningu viðskiptanna.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka hf., segir:
,,Kvika keypti minnihluta í Ortus árið 2018 og hefur síðan átt í góðu samstarfi við félagið og öfluga stjórnendur þess. Kaupin eru rökrétt skref í uppbyggingu Kviku í Bretlandi. Ortus hefur eflst mikið á undanförnum árum og ljóst er að áhugaverð vaxtartækifæri blasa við félaginu í nánustu framtíð.

Á undanförnum árum hefur Kvika nýtt fjárhagslegan styrkleika sinn til þess að auka arðsemi þeirra lánafyrirtækja sem bankinn hefur keypt eða sameinast. Má þar nefna Lykil, Netgíró, Aur og Framtíðina. Áframhald er á þeirri stefnu með þessum kaupum. Áhættuvegin arðsemi lánasafns Ortus hefur verið mjög góð og væntingar eru um að lægri fjármagnskostnaður félagsins eftir kaupin muni auka arðsemina enn frekar. Þá eykst jafnframt landfræðileg dreifing lánasafns bankans og eins hlutfall fasteignatryggðra lána af því.“

Til baka