22. desember 2015

Kvika skráir víkjandi skuldabréf á markað

Kvika hefur nú lokið sölu á víkjandi skuldabréfum í flokkinum KVB 15 01 að nafnvirði 550 milljóna króna. Þetta er í fyrsta skipti frá upphafi fjármálakreppunnar í október 2008 sem íslenskur banki selur víkjandi skuldabréf til fjárfesta. Bréfin eru til 10 ára, teljast til eiginfjárþáttar B og verða skráð á Nasdaq Iceland fyrir árslok.

Skuldabréfin eru seld á ávöxtunarkröfunni 5,50-6,25% verðtryggt miðað við fyrsta innköllunardag. Þau eru innkallanleg af útgefanda þegar liðin verða fimm ár frá útgáfudegi.

Heildarheimild til útgáfu í KVB 15 01 er að nafnvirði 750 milljónir.

„Þetta er merkur áfangi í framþróun íslenska fjármálamarkaðarins. Við í Kviku erum afar stolt af því að ryðja brautina og vera fyrsti íslenski bankinn sem selur víkjandi skuldabréf til einkafjárfesta eftir fjármálakreppuna. Víkjandi skuldabréfin eru nýr þáttur í eiginfjárfjármögnun okkar og eru mikilvægur liður í stöðugri langtímafjármögnun. Kvika eykur sveigjanleika sinn og hagkvæmni með þessari stefnulegu aðgerð. Fjárfestar sýna bankanum og stefnu hans traust með þessum kaupum, sem er okkur mikils virði. Að lokum eru það stór tímamót fyrir Kviku, nú þegar liðnir eru sex mánuðir frá því bankinn varð til við sameiningu, að vera orðinn útgefandi skráðra bréfa á Nasdaq Iceland,“ segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku.

Útgáfulýsing KVB 15 01: http://www.fme.is/media/lysingar/Kvika-Lysing-des--2015.pdf

Til baka