12. júlí 2016

Kvika rannsakaði þjóðhagslega hagkvæmni sæstrengs til Bretlands

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, afhenti í dag Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra skýrslu um niðurstöður rannsóknar á þjóðhagslegri hagkvæmni raforkusæstrengs til Bretlands. Skýrsluna, sem er mjög ítarleg, vann Kvika fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og hófst vinna við hana fyrir um ári síðan. Að þessu umfangsmikla verkefni kallaði Kvika til samstarfsaðila sem búa yfir fjölþættri sérþekkingu, m.a. alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki á sviði orkumála í Evrópu.

Kvika leiðir hóp sérfræðinga

Skýrslan var unnin af sérfræðingum Kviku og fékk bankinn að auki til starfa ráðgjafa frá Pöyry, sem er eitt virtasta ráðgjafafyrirtæki á sviði orkumála í Evrópu, lögfræðistofunni BBA Legal og áhættu- og fjárfestingaráðgjafafyrirtækinu Analytica.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, leiddi stýrihóp verkefnisins en í honum sátu, auk Sigurðar Atla þeir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku, Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku, Dr. Gareth Davis forstöðumaður hjá Pöyry og Michel Martin ráðgjafi hjá Pöyry.

Við framkvæmd rannsóknarinnar var aflað gríðarlegs magns gagna og óskað var eftir ábendingum, áliti og endurgjöf frá hagsmunaaðilum og fjölbreyttum hópi sem býr yfir sérþekkingu um málið. 

Sæstrengur til Bretlands hagkvæmur

Þjóðhagslegur kostnaður og ábati af áhrifum raforkusæstrengs milli Íslands og Bretlands var rannsakaður ítarlega. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að framkvæmdin gæti reynst báðum löndum þjóðhagslega hagkvæm og skilað þeim samanlögðum nettó ábata sem nemur 2,9 milljörðum evra eða um 400 milljörðum íslenskra króna. Nettó ábati fyrir Ísland er áætlaður um 1,4 milljarðar evra eða um 200 milljarðar króna og myndi verkefnið hafa jákvæð áhrif á landsframleiðslu um 1,2-1,6% árlega sem teljast umtalsverð varanleg jákvæð áhrif. Niðurstaðan er háð ýmsum forsendum, m.a. þeim að Bretar veiti umtalsverðan fjárhagslegan stuðning til verkefnisins á grundvelli stefnu um minnkun gróðurhúsalofttegunda, að nægjanlega margir orkukostir séu í boði á Íslandi og að samkomulag náist milli landanna um hagkvæmt viðskiptalíkan fyrir verkefnið.

Án mótvægisaðgerða gæti lagning sæstrengs til Bretlands leitt til hærra raforkuverðs á Íslandi um 0,85 – 1,7 kr /kWst. Meðal heimili myndi greiða um 350 – 710 krónum meira fyrir rafmagnið á mánuði. Möguleg mótvægisaðgerð væri til dæmis færsla raforku í neðra virðisaukastig og myndi sú aðgerð eyða út áhrifum sæstrengs á raforkuverð.

Gert er ráð fyrir að sæstrengurinn verði 1.200 kílómetra langur og að uppitími hans verði 92% á hagrænum líftíma hans. Nýtt framboð rafmagns á Íslandi er áætlað að komi úr „nýtingarflokki“ rammaáætlunar en leiðrétt hefur verið vegna óvissu um stærð og leyfisveitingar vegna jarðvarma. Viðbætur yrðu gerðar við virkjanir sem þegar eru í rekstri og uppsprettur orku sem ekki voru í 2. rammaáætlun ríkisstjórnarinnar hafa verið taldar með, svo sem litlar vatnsaflsvirkjanir og lágjarðvarmavirkjanir. Þar sem þessi orka dugir ekki til hefur einnig verið gert ráð fyrir vindorku á landi.

Skýrsla Kviku

Kvika_atvinnuvegaraduneyti-06155

Kvika_atvinnuvegaraduneyti-06170


Til baka