01. júní 2022

Kvika ráðgjafi ROTOVIA við kaup á hverfissteypustarfsemi Berry Global

Íslenskir fjárfestar hafa gengið frá kaupum á hverfisteypustarfsemi Berry Global Inc en innan þeirrar starfsemi eru meðal annars Sæplast og Tempra sem eru félög með langa og farsæla sögu á Íslandi. Kaupandinn er ROTOVIA hf., nýstofnað félag í eigu framtakssjóðanna SÍA IV og Freyju ásamt lykilstjórnendum. Hverfisteypudeild Berry Global Inc var áður hluti af Promens hf. sem selt var úr landi árið 2015 en félagið var á þeim tíma eitt stærsta fyrirtæki landsins.

 

ROTOVIA mun hafa sterka stöðu hérlendis og erlendis og þjóna fjölbreyttum hópi viðskiptavina í ýmsum markaðsgeirum en með sérstaka áherslu á matvælaiðnaðinn. Hið nýja félag verður með 14 starfsstöðvar í 10 löndum í Evrópu og Ameríku og hjá því munu starfa alls um 800 manns, þar af um 100 starfsmenn á Íslandi. Undir nýju eignarhaldi mun ROTOVIA halda áfram að byggja upp mikilvæg langtímasambönd við viðskiptavini, fjárfesta enn frekar í sjálfvirkni í framleiðsluferlum og nýsköpun, með áherslu á endurvinnanlegar og endurnýtanlegar vörur.

 

Velta hinna keyptu eininga er um 18 milljarðar króna, þar af kemur um helmingur frá eigin vörumerkjum sem eru með mjög sterka stöðu á markaði, s.s. Sæplast, Tempra, iTUB og Varibox  og um helmingur kemur frá framleiðslu á ýmsum hverfisteyptum vörum fyrir kröfuharða alþjóðlega viðskiptavini.

 

Fyrirtækjaráðgjöf Kviku var fjárfestunum til ráðgjafar í kaupferlinu.

 

Sjóður í umsjón Capital Four veitti lánsfjármögnun til kaupanna.

 

Framtakssjóðurinn Freyja slhf. er í umsjón Kviku eignastýringar og SÍA IV er í umsjón Stefnis hf.

Til baka