09. september 2016
Solo Seafood ehf. og Icelandic Group hf. hafa komist að samkomulagi um kaup Solo Seafood á Icelandic Iberica á Spáni. Félagið er dótturfélag Icelandic Group sem er að fullu í eigu Framtakssjóðs Íslands. Tilgangur kaupanna er að efla sölu og markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum í Suður-Evrópu.
Kvika var ráðgjafi Solo Seafood í viðskiptunum sem marka þáttaskil í íslenskum sjávarútvegi þar sem veiðar, vinnsla, vöruþróun, sala og markaðssetning á þessu mikilvæga markaðssvæði er nú á einni hendi.
Solo Seafood ehf. er í eigu Fisk Seafood hf., Jakobs Valgeirs ehf., Nesfisks ehf. og Sjávarsýnar ehf. Framleiðendur sem standa að Solo Seafood hafa selt vörur til veitingastaða fyrir milligöngu Icelandic Iberica um árabil. Framkvæmdastjóri félagsins undanfarin tuttugu ár, Hjörleifur Ásgeirsson, mun stýra félaginu og verður þátttakandi í Solo hópnum.
Magnús Bjarnason,
framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku:
„Við óskum Solo Seafood til hamingju með
kaupin á Icelandic Iberica og þökkum þeim ánægjulegt samstarf. Kaupin marka svo
sannarlega þáttaskil í íslenskum sjávarútvegi. Við teljum líkur á að fleiri
viðskipti muni eiga sér stað á næstunni þar sem öflugar útgerðir og vinnslur
munu færa sig nær markaðnum með kaupum á fyrirtækjum. Þannig svara þau kalli
markaða um að samþætta veiðar, vinnslu, vöruþróun og markaðssetningu undir
stjórn sama aðila.“
---
Frekari upplýsingar um Icelandic Iberica má finna á heimasíðu félagsins http://www.icelandic.es/en/home