13. apríl 2023
Refined Brands lauk kaupum á þremur sjálfbærum tískufyrirtækjum á seinni hluta síðasta árs. Félagið var stofnað árið 2021 af reyndum stjórnendum á breskum smásölumarkaði með það fyrir augum að byggja upp samstæðu samfélagslega ábyrgra fataframleiðenda. Viðskiptin fylgja í kjölfar fyrstu kaupa félagsins á Celtic & Co., sem framleiðir fatnað úr ull og öðrum náttúrulegum efnum í Cornwall, í ársbyrjun 2021. Dótturfélög Kviku unnu saman við ráðgjöf og sölu nýs hlutafjár í tengslum við viðskiptin.
Fyrstu kaupunum lauk í september 2022 og voru á Turtle Doves, sem stofnað var árið 2009 í Shropshire í Bretlandi og framleiðir margvíslegan fatnað úr endurunnu kasmír, þar á meðal húfur og vettlinga. Félagið var keypt af stofnendum, sem munu halda áfram störfum fyrir samstæðuna.
Öðrum kaupunum lauk í október 2022 og voru á Kettlewell Colours, sem stofnað var árið 2004, og framleiðir litríkan kvenfatnað í samstarfi við fjölskyldureknar saumastofur í Evrópu, þar á meðal í Bretlandi, Portúgal og Tyrklandi. Félagið var keypt af stofnendum, sem munu halda áfram störfum fyrir samstæðuna.
Þriðju kaupunum lauk í nóvember 2022 og voru á Frugi, sem stofnað var árið 2004 í Cornwall í Bretlandi og framleiðir barnaföt úr lífrænni bómull. Félagið var keypt í slitameðferð og starfsemi þess flutt í húsnæði Celtic & Co. í Cornwall, samhliða því sem unnt var að bjarga fjölda starfa á svæðinu.
Kaupin á Turtle Doves, Kettlewell Colours og Frugi gera Refined Brands kleift að auka enn úrval neytenda við kaup á umhverfisvænni tískuvöru og halda áfram vexti félagsins á alþjóðavísu með aðstoð miðlægrar, gagnadrifinnar markaðssetningar, en áætlað er að velta sameinaðs félags verði andvirði yfir sjö milljarða króna.
Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kviku Securities:
„Við höfum stutt við vegferð Refined Brands frá upphafi og erum stolt af því að hafa veitt stjórnendum ráðgjöf við nýjustu kaup samstæðunnar. Neytendur eru sífellt meðvitaðri um áhrif neyslu á umhverfi sitt, ekki síst á sviði tísku. Umhverfisvænn fatnaður er vaxtarbroddur tískuiðnaðarins á heimsvísu og Refined Brands er þar í fararbroddi. Við höfum alltaf dáðst að því hvernig Refined Brands sýna samfélagslega ábyrgð í verki og erum þess fullviss að nýjustu kaup félagsins hjálpi félaginu að stíga enn eitt skrefið í átt að betri framtíð.“
James Williams, forstjóri Refined Brands:
„Kaup á félögunum þremur þjóna markmiðum okkar um að stuðla að betri heimi með sjálfbærni að leiðarljósi. Sameinuð eru félögin okkar leiðandi bresk vörumerki á sviði stafrænnar, sjálfbærrar tísku, með ofuráherslu á notkun náttúrulegra og umhverfisvænna efna við framleiðslu fatnaðar. Kvika lék lykilhlutverk við að ljúka kaupum á félögunum. Við erum ákaflega spennt að bjóða þessi glæsilegu vörumerki velkomin í Refined Brands fjölskylduna.”
Refined Brands er eignarhaldsfélag í sameiginlegri eigu starfsmanna og reyndra stjórnenda úr bresku atvinnulífi, sem hefur það að markmiði að starfa með stofnendum umhverfisvænna tískufyrirtækja með sjálfbærni að leiðarljósi. Eftir síðustu kaup félagsins samanstendur Refined Brands af fjórum breskum tískumerkjum sem öll leggja áherslu á samfélagsábyrgð með margvíslegum hætti.