18. september 2023
Í síðastliðinni viku undirrituðu UNICEF á Íslandi og Kvika banki tveggja ára samstarfssamning og er samstarfið við Kviku því orðið eitt farsælasta fyrirtækjasamstarf samtakanna hér á landi. Frá árinu 2011 hefur Kvika verið aðalsamstarfsaðili UNICEF á Íslandi á sviði bankaþjónustu en auk þess er Kvika sérstakur velunnari Heimsforeldra.
Kvika niðurgreiðir bankakostnað Heimsforeldra og gerir UNICEF á Íslandi þannig kleift að nýta söfnunarfé sitt enn betur í þágu réttinda og velferðar barna um allan heim. Kvika veitir UNICEF bestu mögulegu kjör á bankaþjónustu og skuldbindur sig til að styðja við rekstur og fjáröflun UNICEF á Íslandi, bæði með beinum framlögum og öðrum samstarfsleiðum. Á Íslandi eru um 25.000 Heimsforeldrar og eru þeir hvergi hlutfallslega fleiri en hér á landi.
Á síðastliðnum árum hefur Kvika auk þess stutt við ýmis verkefni UNICEF á Íslandi og má þar nefna Dag rauða nefsins, neyðarsöfnun fyrir börn í Jemen og Stöðvum feluleikinn, átak UNICEF gegn ofbeldi gegn börnum á Íslandi.
Það voru Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi og Fríða Ásgeirsdóttir, forstöðumaður markaðsmála hjá Kviku, sem undirrituðu samninginn sem gildir til næstu tveggja ára.
„Kvika tekur virkan þátt í samfélaginu með styrkjum til margvíslegra málefna sem styðja við þau Heimsmarkmið Sameinuðuþjóðanna sem bankinn hefur sett í forgrunn. Síðustu 12 ár höfum við verið aðalstyrktaraðili UNICEF á Íslandi, en UNICEF hefur verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Við erum feykilega stolt af því að geta stutt þau enn frekar til sinna starfa og hlökkum til áframhaldandi samstarfs,“ segir Fríða Ásgeirsdóttir, forstöðumaður markaðsmála hjá Kviku.
„Það er mikilvægt fyrir starfsemi UNICEF á Íslandi að hafa traustan bakhjarl í bankaþjónustu, sem tryggir okkur hagstæðustu mögulegu kjör og góða þjónustu. Slíkt samstarf gerir okkur kleift að nýta fjármagn og tíma betur í verkefni UNICEF fyrir öll börn um allan heim. Með samstarfi sínu við UNICEF er Kvika ómetanlegur velunnari Heimsforeldra UNICEF, hóps rúmlega 25.000 einstaklinga á Íslandi, sem styrkja verkefni UNICEF með mánaðarlegu framlagi og eru þannig mögulega stærsti hópur áhrifavalda á Íslandi á framgang Heimsmarkmiðanna. Það er slagkraftur sem munar um fyrir réttindi og velferð allra barna,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.