29. ágúst 2016

Kvika í samstarf við Wellington Management

Kvika hefur undirritað samstarfssamning við alþjóðlega eignastýringarfyrirtækið Wellington Management um sölu og dreifingu á hlutabréfasjóðnum Global Quality Growth. Sjóðurinn fjárfestir í hlutabréfum á öllum helstu mörkuðum heims með langtíma árangur að leiðarljósi og áherslu á jafnvægi milli vaxtar, arðsemi og gæðaviðmiða.

Wellington Management á rætur að rekja til ársins 1928 og býður upp á stýringu á skráðum verðbréfum á öllum helstu mörkuðum, í gegnum sjóði og sérgreind söfn.  Fyrirtækið er með 969 milljarða dollara í eignastýringu og þjónustar viðskiptavini í yfir 55 löndum.

Global Quality Growth sjóður Wellington bætist nú við fjölbreytt úrval skuldabréfa- og hlutabréfasjóða sem viðskiptavinir Kviku hafa aðgang að á heimsvísu. Eignastýring Kviku er burðarás bankans og þar starfar bankinn á breiðum grunni og veitir sparifjáreigendum alhliða fjármálaþjónustu á innlendum og erlendum mörkuðum. Kvika var nýlega valin fremsta eignastýringarþjónusta á Íslandi þriðja árið í röð af breska fjármálatímaritinu World Finance. Við valið var meðal annars horft til árangurs, vaxtar, vöruþróunar, viðhorfs til áhættu og samfélagslegrar ábyrgðar.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku:

„Þrátt fyrir fjármagnshöft síðustu ára, höfum við hjá Kviku fjárfest í þekkingu á erlendum mörkuðum með góðum árangri. Erlendar eignir í stýringu hafa aukist verulega og stöðugt fleiri viðskiptavinir nýta sér þjónustuna. Það er því ánægjulegt að bæta Global Quality Growth sjóð Wellington við fjölbreytt vöruúrval bankans. Sjóðurinn hefur náð gríðargóðum árangri á undanförnum árum og Wellington Management er öflugur og traustur samstarfaðili.“

---

Frekari upplýsingar um Wellington Management má finna á heimasíðu félagsins https://www.wellington.com/en

Til baka