17. ágúst 2016
Kvika hefur undirritað samstarfssamning við alþjóðlega eignastýringarfyrirtækið T. Rowe Price um sölu og dreifingu á sjóðum þeirra. T. Rowe Price er þekkt á heimsvísu fyrir mikið úrval sjóða í öllum eignaflokkum og mörkuðum. Kvika hefur undanfarin tólf ár verið í góðu samstarfi við Credit Suisse sem er vel þekkt meðal fjárfesta á Íslandi. Með auknum heimildum til fjárfestinga erlendis hefur Kvika unnið að því að auka framboð erlendra fjárfestingarkosta fyrir viðskiptavini sína og er samstarfið við T. Rowe Price liður í því.
T. Rowe Price var stofnað í Bandaríkjunum árið 1937 og í dag er fyrirtækið með um 760 milljarða dollara í eignastýringu og starfsemi í 16 löndum. Fjárfestingarstefna T. Rowe Price er öguð með áherslu á rannsóknir, virka áhættustýringu og stöðugleika.
Viðskiptavinir Kviku hafa nú aðgang að fjölbreyttu úrvali skuldabréfa- og hlutabréfasjóða á heimsvísu í stýringu hjá T. Rowe Price og Credit Suisse.
Eignastýring Kviku er burðarás bankans og þar starfar bankinn á breiðum grunni og veitir sparifjáreigendum alhliða fjármálaþjónustu á innlendum og erlendum mörkuðum. Kvika var nýlega valin fremsta eignastýringarþjónusta á Íslandi þriðja árið í röð af breska fjármálatímaritinu World Finance. Við valið var meðal annars horft til árangurs, vaxtar, vöruþróunar, viðhorfs til áhættu og samfélagslegrar ábyrgðar.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar
Kviku:
„Kvika hefur átt farsælt samstarf við Credit Suisse um
alþjóðlegar fjárfestingar um langt skeið og það er stefna Kviku að geta boðið
viðskiptavinum sínum upp á alhliða þjónustu þegar kemur að fjárfestingum
erlendis. Það er því afar ánægjulegt að greina frá samstarfinu við T. Rowe
Price sem gerir okkur kleift að auka verulega fjölbreytni fjárfestingakosta sem
viðskiptavinum Kviku stendur til boða.“
Frekari upplýsingar um T. Rowe Price má finna á heimasíðu félagsins https://www3.troweprice.com/usis/corporate/en/home.html