30. maí 2018

Kvika í samstarf við Amundi Asset Management - aukin þjónusta á erlendum mörkuðum

Kvika hefur undirritað samstarfssamning við alþjóðlega eignastýringarfyrirtækið Amundi Asset Management um sölu á sjóðum fyrirtækisins. Amundi er stærsta eignastýringarfyrirtæki í Evrópu. Eignir í stýringu fyrirtækisins eru rúmlega 1.400 milljarðar evra sem dreifist á ýmsa eignaflokka, aðallega skuldabréf og hlutabréf.

Höfuðstöðvar Amundi eru í Frakklandi en fyrirtækið er með starfsstöðvar víða um heim og þjónustar viðskiptavini í 37 löndum. Hjá fyrirtækinu starfa um 4.700 starfsmenn. Amundi er einn stærsti eignastýringaraðili heims í skuldabréfum en tæplega helmingur eigna í stýringu er í skuldabréfum. 

Sjóðir Amundi bætast nú við fjölbreytt úrval skuldabréfa- og hlutabréfasjóða sem viðskiptavinir Kviku hafa aðgang að á heimsvísu. Auk Amundi er Kvika m.a. í samstarfi við eignastýringarfyrirtækin Wellington Asset Management, T. Rowe Price Investment Management, Aberdeen Asset Management og fjárfestingarbankann Credit Suisse. 

Eignastýring Kviku er burðarás bankans en bankinn starfar á breiðum grunni og veitir fjárfestum alhliða fjármálaþjónustu á innlendum og erlendum mörkuðum.

Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku:

Kvika hefur  fjárfest í þekkingu á erlendum mörkuðum undanfarin ár með góðum árangri. Markmið okkar er að vera fyrsti kostur hjá viðskiptavinum þegar kemur að fjárfestingum erlendis. Kvika hefur um nokkurt skeið leitað að heppilegum samstarfsaðila í stýringu erlendra skuldabréfa og er því ánægjulegt að samkomulag hafi náðst við Amundi. Eignir í stýringu á erlendum mörkuðum hafa aukist verulega og stöðugt fleiri viðskiptavinir nýta sér þjónustuna. Það er því ánægjulegt að bæta Amundi við fjölbreytt vöruúrval bankans á erlendum mörkuðum. 

Til baka