16. desember 2022
Reitun hefur birt nýtt UFS áhættumat á Kviku og hlýtur bankinn 86 stig af 100 mögulegum og einkunnina A3, sem er framúrskarandi einkunn samkvæmt mati Reitunar. Kvika er vel fyrir ofan meðaltal í öllum UFS flokkunum í samanburði við innlenda útgefendur sem hafa farið í gegnum UFS greiningu hjá Reitun, en þeir eru 35 talsins. Meðaltalið er 72 stig af 100 mögulegum og einkunnaflokkurinn B2.
UFS mat Reitunar felur í sér greiningu á því hversu vel Kvika stýrir sjálfbærniáhættu í starfsemi sinni og er þá árangur samstæðunnar á sviði umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta (UFS) mældur. Í matinu kemur meðal annars fram að hækkun fyrir umhverfisþætti megi helst rekja til þess að nú ná gögn í umhverfisbókhaldi þrjú ár aftur í tímann, en samstæðan er almennt talin standa vel að umhverfismálum. Undir félagslegum þáttum kemur meðal annars fram að staðið hafi verið vel að breytingum og áskorunum sem fylgdu samruna Kviku við TM og Lykil árið 2021 og að þrátt fyrir að því fylgi áskoranir að sameina starfsemi samstæðunnar á einn stað hafi starfsfólk tekið vel í þær breytingar og komu vinnustaðagreiningar árin 2021 og 2022 vel út hjá samstæðunni og starfsánægja mælist há. Þá er minnst á undir stjórnarháttum að á árinu 2022 lauk Kvika ítarlegri stefnumótun í sjálfbærni og var ný sjálfbærnistefna samþykkt fyrir samstæðuna, sem meðal annars leggur áherslu á sex heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Að stefnumótuninni komu allar viðskiptaeiningar bankans og dótturfélög samstæðunnar, rekstrarsvið og áhættustýring.
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku: „Aukin áhersla hefur verið á sjálfbærnimál hjá samstæðunni undanfarið og var meðal annars farið í ítarlega stefnumótunarvinnu á árinu sem lauk með samþykkt nýrrar sjálfbærnistefnu. Stefnan mótar áherslur Kviku í UFS málum til næstu ára, en við leggjum mikið upp úr því að vera ábyrgur þátttakandi í samfélaginu og styðja við sjálfbæra þróun. Kvika hefur núna hlotið framúrskarandi einkunn í UFS mati Reitunar sem er einstaklega ánægjulegt og mikil hvatning fyrir okkur til að halda áfram að bæta okkur í málaflokknum og halda vel utan um sjálfbærniáhættur.“
Hér má nálgast samantekt Reitunar á UFS áhættumati Kviku sem var birt í desember 2022.