22. mars 2021

Kvika eignast allt hlutafé í Aur app ehf.

Kvika banki hefur gengið frá kaupum á 100% hlutafjár í Aur app ehf. Fyrir kaupin átti Nova hf. rúmlega helming hlutafjár í félaginu, en aðrir hluthafar voru m.a. Borgun hf., Social ehf. og Sverrir Hreiðarsson, framkvæmdastjóri Aur. Eftir kaupin verður bankinn eini eigandi félagsins.

Aur var stofnað árið 2015 sem einföld og fljótleg leið til að millifæra peninga og hefur á skömmum tíma byggt upp stóran hóp viðskiptavina, en um síðustu mánaðamót voru virkir notendur Aur appsins um 90 þúsund. Félagið hefur verið leiðandi í fjártækni á Íslandi með farsímagreiðslulausnir og nýja nálgun á neytendalánamarkaði.

Kaupin á Aur eru mikilvægt skref í þeirri vegferð Kviku að nýta tæknilausnir til þess að nútímavæða fjármálaþjónustu. Gert er ráð fyrir því að Aur, ásamt Netgíró og fjártækniþjónustunni Auði muni gegna lykilhlutverki í stafrænni fjármálaþjónustu bankans í framtíðinni.

Gert er ráð fyrir að kaupin hafi óveruleg áhrif á afkomu ársins.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku:

„Kvika er í einstakri stöðu. Aur er með mikla markaðshlutdeild og býr yfir áhugaverðum tæknilausnum. Með þessum kaupum á Aur eykst enn frekar geta félagsins til þess að keppa við önnur fjármálafyrirtæki. Það eru spennandi tímar framundan.“

Sverrir Hreiðarsson, framkvæmdastjóri Aurs:

„Það er mjög spennandi að fá að taka þátt í vegferð Kviku í fjártækniþjónustu. Markmið bankans er að nútímavæða og einfalda fjármálaþjónustu – sem er einmitt það sem Aur snýst um. Við teljum okkur falla mjög vel að þessari stefnu. Hartnær fjórði hver landsmaður er nú virkur notandi hjá Aur sem segir okkur að það er krafa um einfaldari og betri fjármálalausnir. Sem hluti af öflugri samstæðu Kviku mun Aur teymið ná að skapa ný og áhugaverð tækifæri fyrir sína notendur.“

Til baka