16. maí 2025
Í gær lauk sölu á 42,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. og er það næst stærsta eignasala ríkisins í sögunni. Heildarsöluandvirði útboðsins nam 90,6 milljörðum króna, en eftirspurnin var fyrnasterk og nam alls 190 milljörðum króna. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hafði umsjón með útboðinu, ásamt Barclays og Citigroup, sem jafnframt er stærsta opna hlutafjárútboð Íslandssögunnar.
Útboðið einkenndist af víðtækri þátttöku almennings og miklum áhuga bæði innlendra og erlendra fagfjárfesta, sem endurspeglar aukinn áhuga á hlutabréfamarkaði og traust á íslenskum fjármálastofnunum. Eignarhaldi bankans hefur nú verið dreift enn frekar, sem styrkir innviði markaðarins og skapar vitundarvakningu um hlutabréfaviðskipti hjá almenningi.
Langt og vandað undirbúningsferli lagði grunn að farsælli niðurstöðu sem uppfyllti sett markmið um hlutlægni, jafnræði, gagnsæi og hagkvæmni. Útboðið er til marks um mikilvæga innspýtingu fyrir íslenskan hlutabréfamarkað og traustar aðstæður fyrir frekari þróun hans.
Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku „Það er afar ánægjulegt að sjá hversu mikill áhugi var á útboðinu, bæði frá almenningi og fagfjárfestum. Við hjá Kviku erum stolt af því að hafa leitt þetta umfangsmikla ferli, ásamt Barclays og Citigroup og lagt okkar af mörkum til farsællar niðurstöðu“.
Kvika banki óskar íslenska ríkinu, Íslandsbanka og almenningi í landinu innilega til hamingju með farsæla niðurstöðu.