21. febrúar 2025
Samkeppniseftirlitið hefur nú kunngert að gerð hafi verið sátt við Landsbankann vegna kaupa á 100% hlutafjár TM trygginga hf. af Kviku banka. Þar með hefur fyrirvörum í kaupsamningi sem lúta að samþykki fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins verið aflétt.
Afhending á tryggingafélaginu til Landsbankans er áætluð þann 28. febrúar næstkomandi og mun Landsbankinn greiða Kviku banka umsamið kaupverð við afhendingu.
Eins og kom fram í tilkynningu Kviku banka um kaupin þann 30. maí 2024 er umsamið kaupverð 28,6 ma.kr. og miðast það við efnahagsreikning TM í upphafi árs 2024. Endanlegt kaupverð verður aðlagað miðað við breytingar á efnislegu eigin fé TM frá upphafi árs 2024 til afhendingardags.
Í kjölfar viðtöku á kaupverði hyggst stjórn Kviku banka leggja til á aðalfundi bankans þann 26. mars næstkomandi sérstaka arðgreiðslu til hluthafa bankans og verður sú tillaga birt samhliða öðrum tillögum stjórnar til aðalfundar eigi síðar en þann 5. mars næstkomandi.