21. janúar 2022
Kvika banki hækkar um 5 punkta á milli ára í UFS (umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum) mati Reitunar sem gefin var út í desember 2021. Kvika banki hefur gengið í gegnum ákveðnar breytingar síðustu misseri vegna samruna bankans við TM og Lykil og þar sem kaup bankans á Aur og Netgíró gengu í gegn.
Í áhættumatinu er meðal annars komið inn á það að ný heildarstefna Kviku þar sem aukin áhersla er á sjálfbærni hefur litið dagsins ljós og er sjálfbærni jafnframt eitt af 7 aðalmarkmiðum félagsins. Sett hefur verið á laggirnar nefnd um samfélagsábyrgð og sjálfbærni sem heyrir undir forstjóra. Auk þess hefur aðkoma stjórnar og stjórnenda að loftlagstengdum málefnum hefur aukist.
Í samantekt Reitunar kemur m.a. fram að stór þáttur fyrir atvinnugreinina er hvernig tekið er á UFS þáttum í vöru- og þjónustuframboði og að þeirra mati hefur félagið sýnt góðan árangur á sinni vegferð. Í skýrslunni kemur einnig fram að Kvika er viðskiptabanki sem leggur áherslu á fjártæknilausnir í starfsemi sinni, en með stafrænni tækni styður Kvika við einfaldari og vistvænni ferla. Dótturfélög Kviku eru á sömu vegferð og hafa jafnframt náð árangri í stafrænni umbreytingu. Hjá samstæðunni er boðið upp á græn bílalán og græna innlánsreikninga sem falla undir græna fjármálaumgjörð Kviku og er unnið að mótun og þróun að fleirum sjálfbærum vörum. Kvika fór í sína fyrstu grænu skuldabréfaútgáfu í desember 2021 undir grænu fjármálaumgjörðinni.
Marinó Örn Tryggvason forstjóri Kviku: Kvika leggur áherslu á að vera ábyrgur þátttakandi í samfélaginu og er sjálfbærni málaflokkur sem er í hröðum vexti hjá félaginu. Það er ánægjulegt að sjá að niðurstöður UFS áhættumatsins endurspegla vel þá vinnu sem hefur farið fram hjá félaginu í þessum mikilvæga málaflokki.
Kvika banki meðal efstu félaga með 83 stig
Kvika banki er vel fyrir ofan meðaltal í öllum flokkum í samanburði við innlenda útgefendur sem hafa farið í gegnum greiningu hjá Reitun (fjöldi um 35). Meðaltal markaðarins sýnir heildareinkunn sem er nú 67 stig af 100 mögulegum, flokkur B3. Er bankinn meðal 8 efstu félaga í flokki B1 eða ofar, en bankinn hlaut 83 stig af 100 mögulegum, og eru þau félög talin standa vel miðað við markaðinn.
Samantekt á niðurstöðum áhættumats Reitunar.