03. mars 2023

Nýjar fjártæknilausnir kynntar á stefnumóti um fjártækni

Í vikunni sóttu um 150 manns stefnumót Kviku og Fjártækniklasans um fjártækni sem haldið var í samkomusal Kviku. Markmiðið með viðburðinum var að vekja athygli á grósku í fjártækni í dag og kynnast nokkrum af nýsköpunarfyrirtækjum Fjártækniklasans.  

Ólöf Jónsdóttir framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs, Sverrir Hreiðarsson forstöðumaður fjártækni hjá Kviku og Lilja Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Straums héldu erindi ásamt átta fulltrúum félaga innan Fjártækniklasans. Fyrirkomulagið var með þeim hætti að félögin gáfu öll góða kynningu á sínu starfi en gátu um leið komið með hugmynd að fjártæknilausn fyrir Kviku eða kynnt möguleika sem hentaði fyrir samstarf.  Að kynningum loknum var boðið upp á léttar veitingar þar sem gestum og fyrirlesurum gafst kostur á að ræða saman.

Eitt af markmiðum Kviku er að auka samkeppni og umbreyta fjármálaþjónustu á Íslandi með því að hafa sameiginlega hagsmuni bankans og viðskiptavina að leiðarljósi.  Á viðburðinum kynnti Kvika spennandi nýjungar í fjártæknilausnum og aukið vöruframboð í Aur appinu sem er nú með yfir 100 þúsund notendur.

Til baka