08. maí 2023

Icelandic Provisions lýkur 18 milljón dollara hlutafjárútboði

Skyrframleiðandinn Icelandic Provisions lauk nýverið hlutafjáraukningu í samstarfi við Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka og Hamra Capital Partners. Samtals var selt nýtt hlutafé fyrir um 18 milljónir dollara með útgáfu nýrrar C útgáfu (Series C). VEX I, sjóður í stýringu VEX, var leiðandi fjárfestir í hlutafjáraukningunni en auk hans tóku ýmsir íslenskir og bandarískir fjárfestar þátt. Hlutafjáraukningin mun styðja við enn frekari vöxt fyrirtækisins á komandi misserum.

 

Mark Alexander, forstjóri Icelandic Provisions: „Við erum spennt fyrir að byggja ofan á ört vaxandi markaðshlutdeild okkar á komandi misserum. Nýtt fjármagn mun gera okkur kleift að efla vitund um vörumerkið og styðja við metnaðarfulla nýsköpunaráætlun okkar.“

 

Um Icelandic Provisions:

Icelandic Provisions er með höfuðstöðvar í New York og hefur selt skyr í Bandaríkjunum frá árinu 2016 í árangursríku samstarfi við Mjólkursamsöluna (MS). Samstarfið felur m.a. í sér einkarétt á aðferðum, uppskriftum og þróun MS í Norður-Ameríku. Icelandic Provisions er eitt af mest vaxandi vörumerkjum á jógúrtmarkaðinum í Bandaríkjunum en vörur félagsins fást nú í yfir 12.000 verslunum víðsvegar um landið. Meðal næstu verkefna Icelandic Provisions er framleiðsla á hafraskyri en félagið mun hefja sölu á skyrinu í verslunum víðsvegar um Bandaríkin á næsta ári. Icelandic Provisions sér mikil tækifæri til að auka sölu og dreifingu á núverandi vörum félagsins auk þess að selja nýjar vörur inn á sívaxandi markaði fyrir plöntuprótein og ná þannig til stærri hóps neytenda. Stofnendur Icelandic Provisions eru m.a. fjárfestingarsjóðurinn Polaris Founders Capital og MS.

Til baka