16. október 2015
Íslensk eignastýring ehf. dótturfélag Kviku hefur selt nær allan hlut félagsins í Íslenskum verðbréfum. Kaupandi er dreifður hópur fjárfesta auk lykilstarfsmanna Íslenskra verðbréfa. Kaupverðið er trúnaðarmál. Íslensk eignastýring heldur 9,99% hlut í fyrirtækinu með sölurétti sem það hyggst nýta í náinni framtíð.
Burðarás Kviku er öflug eignastýring. Bankinn veitir sparifjár- og innlánseigendum alhliða fjármálaþjónustu innan eignastýringar. Góður árangur hefur náðst í starfsemi eignastýringar Kviku að undanförnu og mikill vöxtur verið í eignum í stýringu óháð eignarhlut bankans í Íslenskum verðbréfum. Fjölmargir fagfjárfestar hafa valið eignastýringu Kviku sem sinn fjárvörsluaðila. Eignastýring bankans hlaut nýverið viðurkenningu fjármálatímaritsins World Finance annað árið í röð fyrir framúrskarandi árangur í eignastýringu.
Kvika mun leggja áherslu á innri vöxt á næstu misserum með áframhaldandi uppbyggingu eignastýringar bankans. Salan á Íslenskum verðbréfum fellur vel að þeirri stefnu.
Engar breytingar verða á starfsemi Kviku vegna sölunnar, enda hafði engin samþætting átt sér stað á milli Kviku og Íslenskra verðbréfa.