28. febrúar 2019
Góð afkoma endurspeglar stöðugan rekstur
Hagnaður Kviku eftir skatta á árinu 2018 nam 1.752 milljónum króna (1.795 milljónir króna fyrir skatta) samanborið við 1.591 milljónir króna (1.418 milljónir króna fyrir skatta) á árinu 2017.
Góður tekjuvöxtur var á árinu en tekjur jukust um 14% á milli ára og var vöxturinn mestur í þóknanatekjum. Hreinar þóknanatekjur jukust um 32% á milli ára og voru 3.698 milljónir króna en 85% af aukningunni komu til vegna eignastýringar. Hreinar vaxtatekjur voru 1.701 milljónir króna og jukust um 9% en fjárfestingatekjur lækkuðu lítillega og voru 521 milljón króna á árinu. Rekstrarkostnaður nam 4.009 milljónum króna á árinu 2018 og jókst um 9% á milli ára einkum vegna aukinna umsvifa eftir sameiningu við Virðingu og kaup á Öldu sjóðum á árinu 2017.
Arðsemi eiginfjár á árinu 2018 nam 15,7%.
Sterk lausafjárstaða og hátt eiginfjárhlutfall
Heildareignir samstæðu Kviku í lok árs 2018 námu 88,3 milljörðum króna samanborið við 75,6 milljarða króna í árslok 2017. Útlán til viðskiptavina jukust um 4,1 milljarða króna á milli ára og voru 29,4 milljarðar króna í árslok. Lausafjárstaða bankans er mjög sterk en eignir bankans í handbæru fé og skuldabréfum með ríkisábyrgð námu 30,6 milljörðum króna í lok árs 2018 og er lausafjárþekja bankans (LCR) 277%, langt umfram 100% lágmarksþekju.
Innlán viðskiptavina jukust um 15% á milli ára og námu 47,9 milljörðum króna í árslok en voru 41,7 milljarðar króna í lok árs 2017. Bankinn gaf út víxla- og skuldabréf á árinu ásamt því að gefa út nýjan víkjandi 10 ára skuldabréfaflokk og nam heildarútgáfa bankans 8,7 milljörðum króna í lok árs. Eigið fé bankans er vel umfram kröfur eftirlitsaðila og var eiginfjárhlutfall í lok árs 25,1% en eiginfjárkrafa að viðbættum eiginfjáraukum er 20,25%.
Í marsmánuði 2018 voru hlutabréf bankans skráð á First North markað Nasdaq Iceland og voru hluthafar í bankanum 733 í lok árs en voru 119 í lok árs 2017. Í marsmánuði 2019 er stefnt að því að skrá hlutabréf Kviku á aðallista Nasdaq Iceland.
Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica föstudaginn 1. mars nk., kl. 8:45.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku:
Árið 2018 var gott ár og við erum ánægð með afkomu ársins sem er í samræmi við þær áætlanir sem við gerðum, þrátt fyrir erfiðar aðstæður á mörkuðum. Bankinn gekk frá kaupsamningi á Gamma Capital Management á árinu 2018 og hefur Fjármálaeftirlitið gefið samþykki sitt fyrir kaupunum en beðið er samþykkis Samkeppniseftirlitsins.
Afkoma bankans var góð, fjármögnun bankans styrktist og vel gekk að halda rekstrarkostnaði á áætlun. Uppbygging bankans hefur gengið í samræmi við áætlanir, vaxtatekjur hafa styrkst og veruleg aukning er í þóknanatekjum. Afkoma eignastýringar meira en tvöfaldaðist á milli ára, ekki síst vegna vel heppnaðra samruna við Virðingu og Öldu sjóði. Árið 2018 var fyrsta heila starfsárið eftir kaupin og munu þau hafa jákvæð áhrif á rekstur bankans til framtíðar.
Sameiningar og kaup undanfarin misseri hafa skilað sér í sterkari og stöðugri rekstrartekjum. Horfur í rekstri bankans eru ágætar og þá felast mikil tækifæri í fyrirhuguðum kaupum á Gamma Capital Management.