18. ágúst 2017
Á stjórnarfundi þann 18. ágúst 2017, samþykkti stjórn og forstjóri árshlutareikning samstæðu Kviku banka hf. fyrir tímabilið 1. janúar 2017 til 30. júní 2017.
Helstu atriði úr árshlutareikningi:
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku:
„Starfsemi Kviku á fyrri hluta árs gekk mjög vel og afkoma bankans er vel umfram væntingar. Það er veruleg aukning í bæði þóknana- og vaxtatekjum og á sama tíma tókst að halda rekstrarkostnaði á áætlun. Góður árangur hefur náðst í uppbyggingu félagsins á undanförnum misserum og eiga starfsmenn Kviku mikið hrós skilið fyrir vel unnin störf og mikilvægt framlag til uppbyggingar bankans.
Við horfum fram á spennandi tíma á næstunni. Kvika festi nýverið kaup á öllu hlutafé í Virðingu og Öldu sjóðum. Kaupin eru nú til umfjöllunar hjá eftirlitsaðilum en gangi þau eftir verður Kvika einn umsvifamesti aðilinn á eignastýringarmarkaði með um 280 milljarða í stýringu.“
Hagnaður Kviku á fyrri helmingi 2017 tæpur milljarður
Hagnaður Kviku fyrstu sex mánuði ársins 2017 nam 946 milljónum króna samanborið við 378 milljónir króna á fyrri helmingi 2016. Mikill tekjuvöxtur var á fyrri helmingi árs 2017 samanborið við fyrri hluta árs 2016. Hreinar vaxtatekjur námu 807 milljónum króna á fyrri helmingi 2017 sem er 53% aukning frá fyrri helmingi 2016 og skýrist einna helst af hagstæðari fjármögnun bankans.
Hreinar þóknanatekjur námu 1.296 milljónum króna á fyrri helmingi árs 2017 og jukust um 11% frá fyrri helmingi 2016. Vöxtur var í þóknanatekjum hjá nær öllum tekjusviðum bankans á milli ára. Rekstrarkostnaður nam 1.609 milljónum króna á fyrri hluta árs 2017 og lækkaði um 3,6% samanborið við fyrri hluta árs 2016. Rekstrarkostnaður er í takt við áætlanir bankans þrátt fyrir aukin umsvif og tekjuaukningu.
Arðsemi eiginfjár á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 nam 26,2%.
Sterkur efnahagur
Í lok júní 2017 námu heildareignir samstæðu Kviku 90.986 milljónum króna samanborið við 59.563 milljónir króna í árslok 2016 og nemur hækkunin 53% á tímabilinu. Útlán til viðskiptavina námu rúmum 25 milljörðum króna í lok júní 2017. Almenn innlán og peningamarkaðsinnlán jukust verulega á tímabilinu, um rúma 25 milljarða króna, eða 55%.
Lausafjárstaða bankans er sterk og nam lausafjárþekjan (LCR) 193% í lok júní 2017 vel umfram kröfur um 100% lágmarksþekju. Handbært fé í lok tímabilsins nam 28.213 milljónum króna.
Eigið fé í lok júní 2017 var 8.208 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 23,1% samanborið við 20,6% í árslok 2016. Eiginfjárstaða bankans er sterk og eiginfjárhlutfall vel umfram kröfur eftirlitsaðila.
Stjórn Kviku hefur ákveðið að skoða kosti þess að skrá bankann á First North markaðinn. First North er norrænn hliðarmarkaður fyrir hlutabréfaviðskipti sem er sérsniðinn fyrir félög í vexti. First North nýtir sömu innviði og dreifingarnet og Nasdaq Nordic, sem veitir viðskiptaaðilum, skráðum félögum, fjárfestum og öðrum aðilum á markaðnum greiðan aðgang að um 80% af verðbréfamarkaði Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Ráðgert er að ákvörðun um hvort af skráningu Kviku á First North verði, liggi fyrir í lok október 2017.