20. júní 2025
Á Kvenréttindadaginn, þann 19. júní, fór fram úthlutun styrkja úr sjóði FrumkvöðlaAuðar í sextánda sinn. Meginmarkmið sjóðsins er að efla frumkvæði og athafnasemi kvenna með því að styðja við framúrskarandi nýsköpunarverkefni. Í ár bárust yfir 90 umsóknir og voru þrjú verkefni valin til styrkveitingar að þessu sinni.
Þau verkefni sem hlutu styrk árið 2025:
Anahí – Líftæknifyrirtæki sem hefur þróað húðvöru úr náttúrulegum innihaldsefnum byggða á vísindalegri þekkingu. Varan er sérstaklega ætluð til að styðja við líkamlegan og tilfinningalegan bata kvenna eftir brjóstakrabbameinsaðgerð.
GRÆNT – Nýsköpunarverkefni sem byggir á nýtingu vallhumals (Achillea millefolium) sem bragðefnis í lífrænni matvælaframleiðslu. Markmiðið er að skapa nýja íslenska búgrein, blómaræktun til matvælaframleiðslu, með sjálfbærni, hreinleika og gæði að leiðarljósi.
Oceans of Data – Nýsköpunarfyrirtæki sem þróar gagnaveitu fyrir sjávarútveginn. Lausnin safnar og birtir markaðsgögn í rauntíma með það að markmiði að efla gagnadrifna ákvörðunartöku og umbreyta viðskiptum með sjávarafurðir.
Anna Rut Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar og þróunar hjá Kviku og formaður stjórnar FrumkvöðlaAuðar.
„Við erum einstaklega stolt af þeim verkefnum sem hlutu styrk að þessu sinni. Öll þrjú eru dæmi um hugrekki, framtíðarsýn og metnað, og endurspegla þá breidd og gæði sem finna má meðal kvenna í frumkvöðlastarfi á Íslandi.“
FrumkvöðlaAuður hefur allt frá stofnun haft að markmiði að styðja við konur sem vilja láta til sín taka á sviði nýsköpunar og athafnastarfsemi. Með árlegum úthlutunum styrkja leggur sjóðurinn sitt af mörkum til að efla fjölbreytileika, nýsköpun og sjálfbærni í íslensku atvinnulífi.