15. mars 2019
Framtakssjóðurinn FREYJA, sem rekinn er af Kviku banka hf. hefur keypt 49% eignarhlut í Ísmar ehf. af Sjávarsýn ehf. sem áfram verður meirihlutaeigandi í félaginu.
Ísmar er sölu- og þjónustufyrirtæki sem býður vörur og þjónustu fyrir flesta atvinnuvegi landsins. Félagið starfar nánast eingöngu á fyrirtækjamarkaði en kjarni starfseminnar er ráðgjöf og sala á tæknibúnaði til m.a. opinberra stofnana, útgerða, verktaka, verkfræðistofa og orkufyrirtækja. Félagið selur m.a. ýmis mælitæki og vélstýringar, GPS mæla, lasertæki, sjómælingatæki, hitamyndavélar, fjarskiptabúnað, loftræsibúnað og hússtjórnunarkerfi. Helstu styrkleikar félagsins felast í sterkum og virtum vörumerkjum (s.s. Trimble, Spectra, Flakt Group, Motorola, FLIR, Honeywell og Teledyne Marine), langri sögu og mikilli þekkingu starfsfólks.
Rekstur Ísmar hefur gengið vel en tekjur þess hafa vaxið rúmlega 20% á milli ára síðustu fimm ár. Stefna eigenda er að halda áfram á þeirri braut sem félagið hefur unnið eftir á undanförnum árum. Fulltrúi FREYJU mun taka sæti í stjórn félagsins og taka virkan þátt í að styðja við áframhaldandi uppbyggingu félagsins.
Samhliða eigendabreytingum lætur Jón Tryggvi Helgason af starfi framkvæmdastjóra eftir áratuga starf fyrir félagið og tekur við sem stjórnarformaður þess. Nýr framkvæmdastjóri sem tekur við í byrjun apríl er Gunnar Sverrisson viðskiptafræðingur. Gunnar hefur áralanga reynslu sem stjórnandi. Síðustu ár hefur hann starfað fyrir Odda prentun og umbúðir ehf, en þar áður starfaði hann í rúm 15 ár sem fjármálastjóri og síðar forstjóri Íslenskra aðalverktaka hf.
Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður Sjávarsýnar:
Það er ánægjuefni fyrir Ísmar og viðskiptavini þess að fá framtakssjóðinn FREYJU að félaginu sem virkan hluthafa. Ég vil þakka það traust sem FREYJA og stjórnendur þess sýna Sjávarsýn og Ísmar með þessari fjárfestingu. Þá vil ég þakka Jóni Tryggva fyrir farsælt samstarf og áratuga störf fyrir Ísmar. Með frábæru starfsfólki hefur Jón Tryggvi byggt upp öflugt fyrirtæki sem svo sannarlega hefur staðið undir slagorði félagsins: „Við mælum með því besta“. Sömuleiðis er mikið ánægjuefni fyrir félagið að njóta starfskrafta nýs framkvæmdastjóra, Gunnars Sverrissonar. Félagið er vel í stakk búið til að halda áfram farsælli langtímauppbyggingu undir hans stjórn.
Margit Robertet, framkvæmdastjóri FREYJU:
Kaupin á 49% hlut í Ísmar er fyrsta fjárfesting framtakssjóðsins FREYJU. Við erum afskaplega ánægð með að fá tækifæri til að styðja við áframhaldandi vöxt Ísmars í samstarfi við Sjávarsýn og nýjan forstjóra.
Um Freyju og Kviku
FREYJA framtakssjóður slhf. er 8 milljarða króna framtakssjóður í rekstri Kviku bank hf. Sjóðurinn fjárfestir í óskráðum félögum með góða rekstrarsögu og áhugaverð vaxtartækifæri. FREYJA var stofnuð um mitt ár 2018 með áskriftarloforðum tæplega 20 hluthafa, lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta.
Frekari upplýsingar veitir:
Margit Robertet, framkvæmdastjóri FREYJU framtakssjóðs slhf., sími 858-6506.