30. september 2019

Tilkynning vegna GAMMA Capital Management hf.

Kvika banki eignaðist GAMMA Capital Management hf. í mars á þessu ári og hefur félagið verið dótturfélag bankans síðan þá. Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að endurskipulagningu á eignastýringarstarfsemi bankans og líkt og tilkynnt var þann 2. september sl. er stefnt að sameiningu á eigna- og sjóðastýringastarfsemi samstæðunnar í eitt dótturfélag. Næstu skref við endurskipulagningu á eignastýringarstarfsemi samstæðunnar verða að færa starfsemi eignastýringar Kviku inn í Júpíter rekstrarfélag hf., dótturfélag bankans. Í kjölfarið er stefnt að því að sameina starfsemi GAMMA og Júpíters.

Komið hefur í ljós að staða tveggja fagfjárfestasjóða í rekstri GAMMA, þ.e. GAMMA: Novus og GAMMA: Anglia, er umtalsvert verri en gert hafði verið ráð fyrir. Hefur skráð gengi þeirra verið lækkað sem því nemur. Lækkun á gengi sjóðanna hefur ekki áhrif á áætlaða afkomu Kviku á árinu 2019. Afkomuspá Kviku var hækkuð í annað sinn á árinu samhliða birtingu hálfsársuppgjörs og er áætlað að afkoma á árinu 2019 verði 2.900 m.kr. fyrir skatta.

Þá hefur Valdimar Ármann látið af störfum sem forstjóri GAMMA og hefur stjórn félagsins ráðið Mána Atlason sem framkvæmdastjóra. Máni hefur lokið BA og MA prófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur starfað á lögfræðisviði Kviku frá árinu 2015, auk þess að vera lögmaður og ritari stjórnar Júpíters. Áður starfaði Máni hjá LOGOS lögmannsþjónustu í Reykjavík og London. Hann er með lögmannsréttindi og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Til baka